Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Kennarar eru hreyfiafl framfara

Sjöunda þing Kennarasambands Íslands stendur nú yfir á Hótel Nordica og er yfirskrift þess „Fagmennska og frumkvæði kennara“. Þing þetta er haldið fjórða hvert ár og er æðsta vald í málum Kennarasambands Íslands. Þingið sitja KÍ, varaformenn aðildarfélaga og einn fulltrúi fyrir hverja fimmtíu félagsmenn auk fulltrúa frá Félagi kennara á eftirlaunum.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ávarpaði þingið og ræddi um mikilvægi kennarastarfsins og góðrar samvinnu: „Við getum eflaust öll verið sammála því að kennarar eru kjölfesta í öllu skólastarfi. Til að halda uppi árangursríku menntakerfi þarf samfélag okkar að hafa á að skipa öflugum kennurum á öllum skólastigum sem starfa við góðar aðstæður í vel búnum skólum. Framsækið menntakerfi er forsenda þess að hér sé farsælt samfélag og þar skipta hæfni kennara, starfsumhverfi þeirra og tækifæri til starfsþróunar sköpum.“

Ráðherra talaði um menntarannsóknir og mikilvægi þeirra fyrir upplýsta ákvarðanatöku í stefnumótum menntamála. Hún tók dæmi af leið Breta sem byggja upp þekkingarkjarna á sviði menntamála – ákveðnir skólar eru gerðir ábyrgir fyrir rannsóknum á skólastarfi og því að miðla þekkingunni áfram út í skólasamfélagið. Þannig skapist lærdómssamfélög þar sem kennarar deili reynslu og þekkingu sem leiði til aukinna gæða og betra skólastarfs. „Grundvallaratriði er að kennurum er treyst til þess að móta og miðla þessari mikilvægu þekkingu. Uppbygging lærdómssamfélags milli skólanna varð til þess að góðum starfsháttum og aðferðum sem gefist höfðu vel var miðlað áfram. Kennarar eru hreyfiafl framfara innan skólakerfisins.“

Samfélagslegar áskoranir tengdar mennta- og skólamálum bar einnig á góma og sagði ráðherra að leggja þyrfti allt kapp á að auka nýliðun kennara, efla kennaramenntun og tryggja að kennaranemar fái bestu menntun og þjálfun sem völ er á til að búa sig undir kennarastarfið. Eitt mikilvægasta verkefnið framundan fælist einnig í viðurkenningu á störfum kennara og aukins faglegs sjálfstæði þeirra. Mörg skref hefðu þegar verið stigin til þess að mæta þessum áskorunum, m.a. aðgerðir til þess að auka nýliðun meðal kennara sem unnin er í nánu samráði við hagsmunaðila. Verkáætlunin væri snörp og fyrirhugað að aðgerðaáætlun liggi fyrir í lok sumars.

Að lokum kvaðst ráðherra hlakka til áframhaldandi góðs samstarfs við kennara og óskaði þeim velfarnaðar í öllum sínum mikilvægu störfum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira