Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á ársfundi Íslandsstofu

ÁRSFUNDUR ÍSLANDSSTOFU
GRAND HÓTEL, 12. APRÍL 2018

ÁVARP UTANRÍKISRÁÐHERRA 
Góðir gestir.
Mig langar hér strax í upphafi að færa ykkur öllum þakkir.
Þakkir fyrir að gæta að hagsmunum Íslands á erlendri grundu, þakkir fyrir að leggja fram krafta ykkar til að auka hagsæld íslensku þjóðarinnar með sókn á erlendum mörkuðum, þakkir fyrir þann metnað sem þið leggið í starf ykkar.
Íslandsstofa hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Og kannski hefur það hlutverk aldrei verið mikilvægara.

Heimurinn er að breytast hratt, miklu hraðar en flestir vita. Við lifum þá tíma að kínverska millistéttin er orðin fjölmennari en íbúar Bandaríkjanna og Kanada samanlagt, nýjar siglingaleiðir kunna að opnast fyrr en varir sem gjörbreyta munu vöruflutningum á heimsvísu og þjónustuverslun á sér engin landfræðileg takmörk lengur.
Það eru mikil tækifæri til staðar. En þau eru ekki sjálfgefin, um þau verður keppt. Hvort við Íslendingar náum árangri í þeirri keppni er undir okkur sjálfum komið.
Okkur hefur gengið margt í haginn á síðustu árum. Við höfum gert margt vel en að sumu leyti höfum við verið heppin.En við getum ekki treyst á heppnina. Við megum ekki leyfa okkur að treysta á heppnina. Við erum í kapphlaupi við aðrar þjóðir og þær eru með plan.

Við þurfum að vera í stakk búinn að keppa um þau tækifæri sem í boði eru.
Við vitum hvað þarf að gera. Við þurfum að auka hér útflutningsverðmæti um einn milljarð króna í hverri einustu viku til halda þeim lífskjörum sem viljum búa við næstu tuttugu árin.
Lífskjör okkar næstu áratugi munu ráðast af því hvernig okkur tekst til á allra næstu árum. Það er staðreynd og hún hvílir á okkar herðum.

Það er í þessu ljósi sem við þurfum að horfa á hlutverk Íslandsstofu. Við munum aldrei ná þessu markmiði með því að vinna hvert og eitt í sínu horni. Við spilum á erfiðum útivelli. Atvinnulífið og stjórnvöld þurfa ganga til leiks sem eitt lið, Team Iceland.
Íslandsstofa er hinn sameiginlegi vettvangur og hún þarf að vera farvegur þeirra krafta sem viljum sameina.
Það er ekki síst af þessum ástæðum sem ég hef nú lagt fram og mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingar á lögum um Íslandsstofu. Breytingar á lögunum, ef þær ná fram að ganga, fela einkum í sér að skerpt verður á rekstrarfyrirkomulagi Íslandsstofu á þann veg að hún verði sjálfseignarstofnun.

Breytingarnar fela einnig í sér að komið verður á þjónustusamningum sem kveða á um skyldur Íslandsstofu og hlutverk gagnvart hinu opinbera.
Útflutnings- og markaðsráð, með breiðri aðkomu hins opinbera og atvinnulífs, fær samkvæmt frumvarpinu það hlutverk að marka langtímastefnu fyrir Ísland um alþjóðlega viðskipta- og markaðssókn.

Á heildina litið gengur þetta út að gera stuðningskerfi útflutnings enn öflugra, samstilltara og sveigjanlegra en hingað til, þannig að þjónustan, ekki síst úti á mörkuðum, verði framúrskarandi og hún löguð að þörfum fyrirtækjanna í þágu aukins útflutnings, markvissari markaðssetningar og aukinna fjárfestinga á hverjum tíma.

Það var þess vegna einstaklega ánægjuleg tilviljun, að sama dag og ég mælti fyrir breytingum á lögum um Íslandsstofa, skyldu lífeyrissjóðirnir færa íslenska ríkinu að gjöf vörumerkið Icelandic. Í afsalinu sem undirritað var í Safnahúsinu í fyrradag er þeim vilja lýst að vörumerkin verði falin Íslandsstofu til umsjónar og að vörumerkið verði nýtt til framtíðar fyrir hágæða íslenskar afurðir í alþjóðlegu markaðsstarfi, íslensku atvinnulífi til hagsbóta.
Ætlunin er að í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins á vettvangi Íslandsstofu verði vörumerkið Icelandic og tengd vörumerk gæðastimpill á íslenskar útflutningsvörur og útflutningsþjónustu. Íslensk fyrirtæki munu þannig geta tengt sig við uppruna sinn og notið góðs af jákvæðri ímynd landsins.

Góðir gestir
Ég vil í lokin ítreka þær þakkir sem ég færði ykkur í upphafi tölu minnar hér í dag. En ég vil líka brýna ykkur til frekari afreka. Við getum gert enn betur.
Næstu ár skipta sköpum um það hvernig Íslandi mun farnast næstu áratugi.
Sameiginlegt starf atvinnulífsins og stjórnvalda á vettvangi Íslandsstofu er lykilþáttur í þessu verkefni.

Og munum: Á útivelli erum við öll í sama liðinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum