Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Norrænir utanríkisráðherrar funduðu í Stokkhólmi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ásamt Timo Soini, Margot Wallström og Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherrum Finnlands, Svíþjóðar og Noregs - mynd

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í júlí næstkomandi og helstu málefni á alþjóðavettvangi voru á meðal umræðuefna utanríkisráðherra Norðurlandanna sem lauk í Stokkhólmi fyrir stundu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sat fundinn þar sem málefni Sýrlands komu meðal annars til umræðu.

"Norðurlöndin eru mjög samstíga í nálgun sinni gagnvart Sýrlandi og þeim takmörkuðu aðgerðum sem Bandaríkin, Bretland og Frakkland réðust í um síðustu helgi. Öll erum við sammála um að hin endanlega lausn á málum í Sýrlandi verði aðeins leyst með pólitískum og diplómatískum hætti, en við vorum sömuleiðis öll sammála um að beiting efnavopna sé óásættanleg og hljóti að hafa afleiðingar í för með sér," segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherrarnir á fundinum í dag. Frá vinstri: Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, Guðlaugur Þór Þórðarson, Margot Wallström, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands.
Utanríkisráðherrarnir á fundinum í dag. Frá vinstri: Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, Guðlaugur Þór Þórðarson, Margot Wallström, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands.


Einnig voru öryggismál á norðanverðu Atlantshafi og í Eystrasaltinu, þróun mála í Evrópu, norðurslóðamál og samskiptin vestur um haf til umfjöllunar.

"Öll eigum við okkar tvíhliða hagsmuna að gæta gagnvart Bandaríkjunum, en við höfum einnig á umliðnum árum nálgast valdhafa í Washington sem ein norræn heild með góðum árangri. Við finnum að Norðurlöndin og framlag okkar á ólíkum sviðum alþjóðastjórnmálanna er vel metið í Bandaríkjunum og við getum nýtt okkur það og almennt gott aðgengi að bandarískum ráðamönnum," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, þar sem jafnréttismál, þróunarsamvinna, málefni Norðurlandanna og Sameinuðu þjóðanna, sem og staða mála í Sýrlandi voru meðal umfjöllunarefna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira