Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs

Frá fundi Loftslagssamnings SÞ í París 2015. Halldór Þorgeirsson er lengst til vinstri.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að skipa Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðs. Gert er ráð fyrir að Loftslagsráð hefji störf í júní.

Halldór Þorgeirsson mun innan skamms láta af störfum sem framkvæmdastjóri alþjóðasamvinnumála hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í Bonn í Þýskalandi. Halldór hefur starfað þar síðan 2004 sem einn af æðstu yfirmönnum UNFCCC og hafði þar m.a. yfirumsjón með samningaferlinu fyrir Parísarsamninginn 2015. Áður vann Halldór sem skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu, þar sem hann var m.a. aðalsamningamaður Íslands í loftslagsmálum og hjá Rannsóknarstofu landbúnaðarins við vistfræðirannsóknir og stefnumótun. Halldór er með doktorsgráðu í plöntulífeðlisfræði og vistfræði frá Utah State University í Bandaríkjunum.

Loftslagsráð verður skipað til tveggja ára og er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi, s.s. varðandi aðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál. Þá skal Loftslagsráð vinna greinargerð um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 og hvernig sé unnt að ná því.

Í Loftslagsráði munu eiga sæti fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Neytendasamtakanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Að auki eiga umhverfisverndarsamtök og háskólar fulltrúa. Þá mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið tryggja samráð við stofnanir sínar sem vinna að loftslagsmálum auk þess sem Loftslagsráð mun hafa náið samband við ólíka haghafa, s.s. fulltrúa atvinnulífsins, sveitarfélaga, vísindasamfélagsins, frjálsra félagasamtaka og annarra. Þá er áhersla lögð á að Loftslagsráð hafi samráð við nýstofnað ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn