Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mennta- og vísindaráðherrar undirrita Norðurlandasamning um jafnan aðgang að háskólum

Norðurlandasamningur um jafnan aðgang að háskólum var framlengdur um þrjú ár með formlegri undirskrift norrænna ráðherra menntamála og vísinda í Stokkhólmi í dag.

Í samningum felst að Norðurlöndin skuldbinda sig til þess að veita umsækjendum sem búsettir eru á Norðurlöndunum inngöngu að opinberum menntastofnunum á háskólastigi, hver í sínu landi, með sömu skilyrðum og gilda fyrir umsækjendur frá eigin landi. Rannsóknarnám er þó undanþegið.

Samkvæmt upplýsingum norrænu lánasjóðanna um flæði námsmanna milli Norðurlandanna árið 2017 voru 500 Íslendingar við háskólanám í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Á sama tíma voru um 175 norrænir stúdentar við háskólanám á Íslandi.

„Samningurinn er afar mikilvægur fyrir Ísland og Norðurlöndin öll. Hann viðheldur möguleikum Íslendinga til háskólanáms á Norðurlöndunum og öfugt. Við eigum að halda áfram að vinna náið með Norðurlöndunum á sem flestum sviðum og gera námsmönnum okkar kleift að sækja sér þekkingu þvert á landamæri,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal þess sem einnig var til umfjöllunar á fundi ráðherranna í dag var staða kennara á Norðurlöndunum og aukið samstarf um rannsóknir, þróun og stefnumótun á háskólastigi. Fram kom í máli norska menntamálaráðherrans að kennaranám þar í landi hefði verið lengt í fimm ár árið 2017. Umsóknum um námið hefði fjölgað verulega í ár eða um 15% í leikskólakennaranámið og 25% í grunnskólakennaranámið.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sagði að norðurlandavettvangurinn væri mikilvægur til að fylgjast náið með og ræða framþróun í menntamálum. Þar nefndi hún sérstaklega stöðu kennara, snemmtæka íhlutun og gagnkvæma viðurkenningu prófgráða og starfsréttinda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira