Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Möguleikar á nýtingu jarðvarma að mestu ónýttir

„Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda um langt árabil að styðja frumkvæði á heimsvísu að aukinni nýtingu jarðvarma. Möguleikarnir eru gífurlegir og að mestu leyti ónýttir,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í opnunarávarpi á Íslensku jarðhitaráðstefnunni sem hófst formlega í morgun í Hörpu á vegum Íslenska jarðvarmaklasans. Rúmlega sex hundruð þátttakendur frá 40 þjóðríkjum sækja ráðstefnuna og fyrirlestrar eru yfir 80 talsins.

Utanríkisráðherra gerði að umtalsefni í ávarpi sínu beina nýtingu jarðvarma til húshitunar, í iðnaði, fiskeldi og fiskvinnslu. Hann sagði að samanborið við nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu væri þetta þáttur þar sem tæknilegar hindranir væru færri, kostnaður minni, mikill sýnilegur ávinningur og loftgæði ólíkt betri. Hann kvaðst stoltur nefna sem dæmi jákvæða þróun í Kína á síðustu árum, með aðkomu Íslendinga, þar sem fjárfest væri í húshitun með jarðhita í nýjum borgum og borgarhverfum.

„Tengslin milli fæðuöryggis og jarðhita er einnig vert að nefna. Á Íslandi höfum við notað jarðhita í landbúnaði og fiskvinnslu um langt skeið. Þurrkun matvæla er gott dæmi og þekkt um heim allan. Þessir möguleikar eru þó langt frá því að vera fullþróaðir í matvælaframleiðslu og augljóst að nýta má jarðhita á því sviði í auknum mæli í stað jarðefnaeldsneytis,“ sagði ráðherra.

Guðlaugur Þór vék jafnframt að áherslu Íslendinga á jarðhitanýtingu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands, samstarfinu við Alþjóðabankann og Norræna þróunarsjóðinn við jarðhitaleit í austanverði Afríku. Hann ítrekaði mikilvægi þess að Íslenska jarðhitaráðstefnan væri vettvangur fyrir íslenska sérþekkingu á jarðhita og tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að sækja fram á alþjóðavettvangi. Ennfremur nefndi hann að Alþjóðabankinn hefði með stuðningi Íslands tryggt 250 milljóna dala framlög í sérstakan áhættusjóð í jarðhitaþróun.

Ráðherra fagnaði sérstaklega fjörutíu ára afmæli Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hann sagði að væri móðurskip í útrás Íslendinga á þessu sviði og hefði einnig útskrifað tvö þúsund sérfræðinga frá árinu 1978. Áhrifa skólans gætti ekki hvað síst í Kenía, sem hefði nýlega skotist fram úr Íslendingum í framleiðslu á rafmagni frá jarðhitavirkjunum.

Málstofur á ráðstefnunni skiptast í þrjú svið: framtíðarsýn, þróun og rekstur. Einnig verða sérstakar málstofur haldnar á vegum Íslenska orkuháskólans (ISE), Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu Þjóðanna (UNU-GTP) og Alþjóðabankans (World Bank Group).

„Með síauknu mikilvægi umhverfis- og loftslagsmála fyrir heiminn allan getur jarðvarmi leikið stórt hlutverk í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og aukið orkuöryggi þeirra þjóða sem nýta hann,“ segir Viðar Helgason framkvæmdastjóri Íslenska jarðvarmaklasans sem stendur að þessari fjórðu alþjóðaráðstefnu Íslenska jarðhitaklasans.

Vefur ráðstefnunnar, www.igc.is

Ræða ráðherra

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum