Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Ráðherra afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins fullgildingarskjal Istanbúlsamningsins

Ásmundur Einar Daðason og Thorbjørn Jagland - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, fundaði í dag með Thorbjørn Jagland aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Á fundinum afhenti ráðherra staðfestingarskjal um fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Fullgilding samingsins af Íslands hálfu er í samræmi við efni stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og áherslur hennar í jafnréttismálum þar sem sérstaklega er fjallað um aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi.

„Það er mér sérstök og persónuleg ánægja að hafa afhent staðfestingarskjal Íslands um fullgildingu Istanbúlsamningsins“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. „Kynbundið ofbeldi, kynferðisleg áreitni og mismunun þrífst í öllum lögum samfélagsins og eru konur og börn í miklum meirihluta þeirra sem fyrir því verða. Ákvæði samningsins er leiðarljósi í þeirri vinnu sem framundan er til þess m.a. að bregðast við frásögnum og áskorunum um breytingar sem fram hafa komið í kjölfar #Ég-líka-hreyfingarinnar“ segir Ásmundur Einar.

Samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúlsamningur, var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Samningurinn er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð.

Í mars 2016 náðist fyrsti áfangi í fullgildingu Istanbúlsamningsins hér á landi með gildistöku breytinga á almennum hegningarlögum. Þar eru m.a. var sett í lög ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum. Samkvæmt samningnum hafa stjórnvöld einnig skyldur sem kalla á aðgerðir til að fyrirbyggja og veita vernd gegn ofbeldi og hefur síðastliðin ár verið unnið að þeim verkefnum. Skyldur þessar snúa að rekstri kvennaathvarfa, starfrækslu neyðarnúmers, þjónustu við þolendur og meðferðarúrræði fyrir gerendur. Jafnframt hefur þurft að uppfylla skyldur samningsins varðandi þau ákvæði er kveða á um mikilvægi þess að tryggja samráð um þjálfun og endurmenntun fagstétta, mikilvægi forvarna og fræðslu og endurskoðun á verklagi og reglugerðum á grundvelli gildandi laga, meðal annars hvað varðar meðferð mála hjá lögreglu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira