Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Ráðherra opnaði margmiðlunarsýningu í Berlín

Ógnarkraftar náttúrinnar voru í aðalhlutverki í Felleshus, norrænni miðstöð sendiráðanna í Berlín í dag þegar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra opnaði margmiðlunarsýninguna MAGMA: CREATING ICELAND. Sýningin er í tilefni 100 ára fullveldis Íslands. Hún dregur fram frumkrafta Íslands, eldinn, hraunið, seigluna og kraftinn og beinir sjónum að því hvernig náttúruöflin hafa skapað landið og mótað fólkið sem það býr.

„Það á vel við að náttúröflin séu í aðalhlutverki á þessari áhrifaríku sýningu því Íslendingar fengu svo sannarlega að finna fyrir þeim árið sem fullveldið fékkst. Þessir kraftar hafa einnig leikið stórt og jákvætt hlutverk í að auka aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar eins og þegar gosinu í Eyjafjallajökli var umsnúið upp í jákvætt kynningarátak fyrir áfangastaðinn Ísland“ sagði Guðlaugur Þór. Í ávarpi sínu lagði hann auk þess áherslu á hversu nútímalegt og kraftmikið samfélag hefði risið á Íslandi frá fullveldinu sem grundvallaðist meðal annars á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og áherslu á jafnrétti kynjanna á öllum sviðum.Sýningin MAGMA: CREATING ICELAND  byggist að mestu á margmiðlunartækni en einnig hefur risavöxnum hraunmola verið komið fyrir í Felleshus sem gestir geta snert og myndað. Búast má við að um þrjátíu þúsund gestir sæki sýninguna, sem stendur til 1. júlí næstkomandi.

„Fullveldisafmælinu er fagnað í sendiskrifstofum Íslands víða um heim en hátíðin í Berlín er sérstaklega umfangsmikil. Það endurspeglar vináttu og gott samstarf ríkjanna á sviði menningar og viðskipta,“ sagði ráðherra. Hann benti á að mikill samhljómur væri á milli ríkjanna á alþjóðasviðinu þar sem bæði ríkin ynnu ötullega að mannréttindum og sjálfbærni.

Sendiráð Íslands í Berlín hefur veg og vanda af undirbúningi sýningarinnar, í samvinnu við Gagarín og Basalt, en Icelandair, Íslandsstofa, Landsvirkjun, Samskip, Lava Centre og Perlan eru bakhjarlar.

Utanríkisráðherra opnaði einnig sýningu listakonunnar Katrínar Friðriks „Waste editions”, sem er hluti af „Gallery-Weekend“. Hátt á fimmta tug viðburða eru liður í þessari hátíð sem fram í Berlín um helgina. Katrín beinir sjónum að umhverfismálum, loftslagsmálum, mengun og vanda við að farga rusli víða um heim, sem og endurvinnslu og endurnýtingu.

Mikill fjöldi íslenskra listamanna er búsettur í Berlín og er Þýskaland einn mikilvægasti markaður heims fyrir íslenska menningu. Góð alþjóðleg tengsl og samstarfstækifæri hafa skapast fyrir íslenska listamenn í Berlín, auk þess sem borgin ágætur stökkpallur inn á aðra markaði í Evrópu og um allan heim.

Nánari upplýsingar um fullveldisdagskrá Íslands í Þýskalandi er að finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira