Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Stefnumótun og áætlanagerð Stjórnarráðsins styrkist verulega

Stefnuráð Stjórnarráðsins hefur framkvæmt könnun á stöðu stefnumótunar og áætlanagerðar innan Stjórnarráðsins og forsætisráðherra kynnti niðurstöður könnunarinnar í ríkisstjórn í morgun. 

Könnunin, sem var framkvæmd í desember 2017, er byggð á sama grunni og könnun sem framkvæmd var vorið 2015.  Endurtekningu könnunarinnar er ætlað að veita innsæi í það hvort og hvernig þekking og geta starfsfólks Stjórnarráðsins þróast á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá því síðasta könnun var gerð. 

Þátttakendur í könnuninni voru ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar auk valinna sérfræðinga úr öllum ráðuneytum. Skemmst er frá því að segja að helstu niðurstöður eru að þátttakendur telja að þekkingu og getu hafi farið mikið fram á þessum árum, stefnur og áætlanir séu oftar fjármagnaðar og komist frekar til framkvæmda en áður. Þannig telur nú meiri hluti þátttakenda eða 81% að þekking á stefnumótun og áætlanagerð innan Stjórnarráðsins sé í meðallagi, frekar viðunandi eða mjög viðunandi, samanborið við 57% í könnuninni sem gerð var árið 2015. Enn má þó gera betur er kemur að samhæfingu og samræmingu innan og á milli ráðuneyta. Skýrslu um niðurstöður könnunarinnar má finna hér að neðan.

Stefnuráð Stjórnarráðsins tók til starfa í febrúar 2015 undir forystu forsætisráðuneytisins. Í ráðinu sitja sérfræðingar úr öllum ráðuneytum í stefnumótun og áætlanagerð. Stefnuráðið hefur það hlutverk að vera samhæfingar- og samráðsvettvangur innan stjórnsýslunnar til að efla og bæta getu hennar til stefnumótunar og áætlanagerðar. Hlutverk stefnuráðsins er að móta viðmið fyrir stefnumótun og áætlanagerð innan Stjórnarráðsins, efla og samhæfa vinnubrögð ráðuneyta með fræðslu, ráðgjöf og tilmælum og leiðbeina varðandi samspil við fjármagn og lagafrumvörp.

Fyrir liggur að gildistaka laga um opinber fjármál hefur haft töluverð áhrif á umgjörð og framkvæmd stefnumótunar innan Stjórnarráðsins. Í lögunum er kveðið á um skyldu ráðherra til að móta stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á til eigi skemmri tíma en fimm ára. Jafnframt gera lögin ráð fyrir því að stefnumótun fyrir einstök málaefnasvið séu kynnt í greinargerð með fjármálaáætlun sem einnig er sett fram til fimm ára í senn. 

Niðurstöður könnunar stefnuráðs um stefnumótun innan Stjórnarráðsins

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira