Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samstarf við öflug ungmennasamtök

Landsamband ungmennafélaga, LUF, eru regnhlífasamtök frjálsra félagasamtaka ungs fólks á Íslandi og standa að þeim 31 aðildarfélag sem leidd eru af ungu fólki. Markmið LUF er að vernda og efla réttindi ungs fólks og stuðla að valdeflingu ungmenna, efla samstarf félagasamtaka ungs fólks og hvetja til virkrar samfélagsþátttöku. Á dögunum skrifuðu fulltrúar LUF undir samstarfssamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem styrkja mun starfsemi þess næstu þrjú árin. Sigurður Helgi Birgisson formaður LUF og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningamálaráðherra undirrituðu samninginn á mánudag.

„Við gleðjumst yfir þessum áfanga og bindum vonir við gott samstarf við Landsamband ungmennafélaga til framtíðar. Raddir unga fólksins þurfa að hljóma á sem flestum sviðum þjóðlífsins og innan raða þessara fjölbreyttu félagasamtaka er kraftmikið og drífandi fólk sem vill og mun hafa áhrif, til hagsbóta fyrir samfélagið okkar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal verkefna sem LUF stendur fyrir er Leiðtogaskóla Íslands og lýðræðisátakið #Ég kýs, ásamt Sambandi íslenskra framhaldsskólanema. LUF er einnig aðili að Evrópska ungmennavettvanginum (European Youth Forum) og á fulltrúa í ráðgjafaráði Evrópuráðsins um ungt fólk (Advisory Council) sem fundar með stýrinefnd Evrópuráðsins um málefni ungs fólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira