Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Skipað í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu heilbrigðisþjónustu

Elsa B. Friðfinnsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Elsu B. Friðfinnsdóttur skrifstofustjóra yfir skrifstofu heilbrigðisþjónustu í velferðarráðuneytinu. Skipunin er í samræmi við mat ráðgefandi hæfnisnefndar sem mat Elsu hæfasta úr hópi þrettán umsækjenda.

Elsa er hjúkrunarfræðingur að mennt, með meistaragráðu í kennslu og rannsóknum frá University of British Columbia (1995), diploma í heilsuhagfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands (2014).

Elsa hefur fjölbreytta starfsreynslu á sviði heilbrigðismála, hefur sinnt stjórnunarstörfum, komið að menntun og fræðslu heilbrigðisstétta og unnið við mannauðsstjórnun.

Árin 1984 – 1990 starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsum, heilsugæslu og heilsuverndarstöð, hún var lektor í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri 1991 –  2002, deildarforseti heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri 1997 – 1999 og framkvæmdastjóri á Fræðsludeild Landspítala 1999 – 2000. Árin 2000 - 2001 var Elsa sviðsstjóri á skurðlækningasviði Landspítala, hún var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra árin 2001 – 2003, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga árin 2003-2013 og mannauðsstjóri við Sjúkrahúsið á Akureyri 2014 – 2016. Frá ársbyrjun 2016 hefur Elsa starfað sem sérfræðingur á skrifstofu heilbrigðisþjónustu í velferðarráðuneytinu.

Eins og segir í umsögn hæfnisnefndar spannar ferill Elsu marga fleti þess starfs sem um ræðir, bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu. Í umsögninni kemur einnig fram að Elsa hafi komið sterkt út úr öllum matsþáttum ferilsins: „Hún er metnaðargjörn, hefur mikla stjórnunarreynslu, ríka leiðtogahæfileika, er skipulögð og hefur jákvæða framkomu“ segir meðal annars í umsögn nefndarinnar.

Elsa hefur störf sem skrifstofustjóri á skrifstofu heilbrigðisþjónustu 1. júlí næstkomandi og tekur þá við af Vilborgu Ingólfsdóttur sem lætur af störfum vegna aldurs.

Líkt og áður segir er ákvörðun heilbrigðisráðherra um að skipa Elsu í embætti skrifstofustjóra í samræmi við mat hæfnisnefndarinnar sem er ráðgefandi, en um störf slíkra nefnda er fjallað í reglum nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira