Hoppa yfir valmynd
11. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samráðsfundur með sérfræðingum OECD um aukinn árangur á sviði jafnréttismála

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Sérfræðingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. Organisation for Economic Cooperation and Development, OECD) á sviði stefnumótunar og jafnréttismála voru gestir samráðsfunda um samþættingu jafnréttissjónarmiða við stefnumótun stjórnvalda sem haldnir voru hér á landi 7. og 8. maí í samstarfi jafnréttisteymis velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Fundirnir eru hluti af eftirfylgni stjórnvalda með viljayfirlýsingu um aukið samráð íslenskra stjórnvalda og OECD um hvernig megi auka árangur á sviði jafnréttismála með aðferðum stefnumótunar. OECD er leiðandi á alþjóðavettvangi við söfnun og greiningu gagna sem er mikilvægur liður í öllu starfi er viðkemur til að mynda stefnumótun á sviði jafnréttismála og kynjaðrar áætlanagerðar og hagstjórnar.

Í tilefni af komu sendinefndarinnar stóð velferðarráðuneytið að vinnufundi fyrir ráðuneytisstjóra og forstöðumenn ríkisstofnana og fundum með jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna og sérfræðingum Stjórnarráðsins um stefnumótun, samþættingu jafnréttissjónarmiða og kynjaða fjárlagagerð. Sendinefnd OECD fundaði einnig með ráðherranefnd um jafnréttismál þar sem meðal annars var rætt um hvernig íslensk stjórnvöld geti tryggt ákvörðunatöku sem leiði til ávinnings á sviði jfanréttis- og mannréttindamála almennt. 

Markmið fundanna var einnig að eiga samráð um mótun áætlunar til fjögurra ára um innleiðingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins en það verkefni er liður í núgildandi framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum.

Lögðu sérfræðingar OECD áherslu á að lagasetning ein og sér dugi ekki til að stuðla að og viðhalda jafnrétti. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða er viðurkennd aðferð til að tryggja vandaða stefnumótun sem hafi að markmiði að fyrirbyggja mismunun og stuðla að jöfnum tækifærum allra. Að lokum voru möguleikar aukins samstarfs á milli OECD og íslenskra stjórnvalda á sviði jafnréttismála rædd en aðildarríki OECD mörkuðu sér stefnu í jafnréttismálum árið 2015 og kynntu leiðir til að ná fram jafnréttismarkmiðum árið 2018.

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum