Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsótti Vernd fangahjálp

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, ásamt Páli Winkel, forstjóra fangelsismálastofnunar, Þráni Farestveit, framkvæmdastjóra Verndar, Elsu Dóru Grétarsdóttur, formanns stjórnar Verndar, Hauki Guðmundssyni, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytis og Rögnu Bjarnadóttur, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneyti - mynd

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, heimsótti Vernd fangahjálp á dögunum ásamt starfsfólki dómsmálaráðuneytis. Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar, og Elsa Dóra Grétarsdóttir, formaður stjórnar Verndar, tóku vel á móti ráðherra og fylgdu henni um húsið en þar geta dvalið allt að 23 fangar á einum tíma.

Dómsmálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á áframhaldandi samstarf milli Verndar og Fangelsismálastofnunar þar sem áfangaheimilið gegni mikilvægu hlutverki í betrun fanga sem geta lokið afplánun utan fangelsis þar, stundað vinnu og aðlagast daglegu lífi að nýju.

Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunar, og Þráinn Farestveit undirrituðu nýjan samning um vistun fanga á áfangaheimili Verndar við þetta tækifæri en ráðherra hafði tryggt fjármagn til aukins samstarfs þeirra á milli. Samningurinn kveður m.a. á um að fangar með þyngri dóma geti nú afplánað lengri tíma á heimilinu eða 16 mánuði í stað 12 áður. Er sú breyting í samræmi við áherslur um aukið vægi afplánunar utan fangelsa. Þá mun fulltrúi Verndar auka þjónustu við fanga í fangelsum landsins og kynna öllum föngum starfsemi Verndar.

„Áratugagömul saga Verndar er saga frumkvæðis áhugamanna um aðstoð við þá sem hafa afplánað dóma í fangelsum. Það er enginn vafi í mínum huga að starf Verndar skiptir sköpum fyrir þá sem þess njóta. Að sama skapi hafa fangelsismálayfirvöld notið góðs af samstarfinu við Vernd. Það er sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld standi vörð um þetta góða samstarf, með betrun fanga að leiðarljósi,“ sagði Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, og óskaði starfsfólki Verndar velfarnaðar í sínum störfum.

Páll Winkel og Þráinn Farestveit undirrituðu nýjan samning um um vistun fanga á áfangaheimili Verndar en ráðherra hafði tryggt fjármagn til aukins samstarfs fangelsismálastofnunar og Verndar

Páll Winkel og Þráinn Farestveit undirrituðu nýjan samning um um vistun fanga á áfangaheimili Verndar en ráðherra hafði tryggt fjármagn til aukins samstarfs fangelsismálastofnunar og Verndar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira