Velferðarráðuneytið

Umsækjendur um embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Þrír umsækjendur eru um embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem velferðarráðuneytið auglýsti laust til umsóknar í apríl síðastliðnum.

Umsækjendur eru eftirtaldir:

  • Gylfi Ólafsson hagfræðingur
  • Markús Ingólfur Eiríksson, doktor í endurskoðun
  • Valdimar Hermannsson verkefnastjóri

Þriggja manna nefnd sem skipuð er af heilbrigðisráðherra í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. 

Forstjóri ber ábyrgð á að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem ráðherra setur honum. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og þjónustu stofnunarinnar, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Heilbrigðisstofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða sem nær yfir sveitarfélögin Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp, Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp. Þá annast stofnunin starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er með fjölmennustu vinnustöðum á Vestfjörðum þar sem starfa að jafnaði um 250 manns og er ársvelta stofnunarinnar um 2,2 milljarðar króna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn