Hoppa yfir valmynd
24. maí 2018 Matvælaráðuneytið

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur hjá VR – verðlaunaathöfn fyrirtækis ársins 2018

VR – fyrirtæki ársins, hátíðarávarp, 23. maí 2018

Formaður, góðir gestir.

Til hamingju, fulltrúar þeirra fyrirtækja sem hljóta viðurkenningu hér í dag.

Og takk VR, fyrir að bjóða mér að ávarpa þessa athöfn. Hún á sér langa sögu og er fyrir löngu orðinn rótgróinn viðburður.

Það er gaman að segja frá því að á þessum stað í dagskránni hefur venjulega verið skemmtiatriði … en að þessu sinni var ákveðið að breyta til!

Ábyrgð – það er hugtakið sem mig langaði til að fjalla svolítið um í þessu stutta erindi.

Byrjum á að spyrja: Hvers vegna hafa fyrirtækin, sem fá viðurkenningu hér í dag, staðið sig svona vel? Í spurningakönnun VR er lögð áhersla á níu mælikvarða. Á meðal þeirra eru þættir á borð við starfsanda, sveigjanleika í starfi og ánægju og stolt starfsmanna.

Við getum spurt: Bera fyrirtækin ábyrgð á að starfsmenn þeirra séu ánægðir í starfi, stoltir af vinnustaðnum, að starfsandinn sé góður, og að sveigjanleiki í starfi sé mikill?

Eitt mögulegt svar væri þetta: Nei, fyrirtækin bera ekki ábyrgð á því, en hins vegar leggja sumir stjórnendur engu að síður kapp á að standa sig vel á þessum sviðum, vegna þess að þeir eru svo vel upp aldir, kurteisir, góðhjartaðir og velviljaðir.

Það eru ábyggilega margir áratugir síðan þetta viðhorf vék til hliðar sem meirihlutaskoðun meðal stjórnenda, þó að einhver dæmi finnist um þessa nálgun á öllum tímum, bæði fyrr og síðar.

Í dag myndu ábyggilega flestir stjórnendur segja: Já, fyrirtæki bera ábyrgð á starfsanda, ánægju, stolti, sveigjanleika í starfi og svo framvegis, ekki síst gagnvart eigendum og hluthöfum, því að þessir þættir eru lykillinn að velgengni fyrirtækjanna til lengri tíma.

Slæmur liðsandi getur dregið niður hvaða lið sem er, sama hversu miklum hæfileikum það hefur á að skipa. Það gildir í fyrirtækjarekstri rétt eins og í íþróttum. Það er allra hagur, bæði starfsmanna og eigenda, að liðsandinn sé góður; hann er forsenda fyrir drifkrafti og metnaði.

Ég efast ekki um að stjórnendur fyrirtækjanna sem fá viðurkenningu hér í dag eru að minnsta kosti jafn góðhjartaðir og velviljaðir einstaklingar og gildir um fólk almennt, en ég leyfi mér að segja að viðurkenningin sé fyrst og fremst til marks um að þau viti hvað þarf til að ná árangri. Og það er vissulega lofsvert og verðskuldar viðurkenningu.

Ég nefndi áðan að áherslan á liðsanda og samheldni hefur ekki alltaf verið ríkjandi sjónarmið í rekstri. Og viðhorfin breyttust ekki sjálfkrafa. Það er bæði ljúft og skylt að minnast hér á þátt verkalýðsfélaga á borð við VR, sem hafa lagt mikið af mörkum til að breyta ríkjandi viðhorfum um hvað við skilgreinum sem „góðan vinnustað“. Og hin árlega könnun, sem er kynnt hér í dag, er jákvæð leið til að hvetja fyrirtækin til dáða í þeim efnum og efla upplýsingagjöf um árangur, en upplýsingar eru ein mikilvægasta forsenda þess að samkeppnin virki.

Að lokum langar mig að nefna stuttlega annars konar ábyrgð fyrirtækja, nefnilega: Samfélagslega ábyrgð. Sú umræða er nokkrum áratugum á eftir umræðunni um ábyrgð fyrirtækja á starfsanda og þess háttar, sem ég ræddi hér áðan. Samfélagsábyrgð fyrirtækja á sér ekki áratuga-sögu sem viðurkennt fyrirbæri heldur er það fyrst hin síðari ár að hún hefur haslað sér völl sem tiltölulega óumdeild nálgun.

Ein af ástæðunum er betri skilningur á því út á hvað hún gengur. Samfélagsábyrgð fyrirtækja gengur ekki út á að styrkja íþróttafélög, listir og góðgerðarsamtök. Slíkir styrkir eru fullkomið aukaatriði þegar kemur að samfélagsábyrgð.

Ein besta skilgreiningin, sem oft er vitnað til, hljómar svona: „Samfélagsábyrgð snýst ekki um það, hvernig fyrirtækin eyða peningum, heldur hvernig þau afla þeirra.“

Og hér gildir það sama og varðandi starfsmannamálin: Ábyrgðin er ekki síst gagnvart eigendum og hluthöfum fyrirtækjanna, því að starfsemi sem brýtur í bága við almennt viðurkennd gildi, að ekki sé minnst á lög og reglur, slík starfsemi er ávallt í bráðri lífshættu og verður að öllum líkindum skammlíf.

Það er ekki val að sýna samfélagsábyrgð. Það hvort fyrirtæki sýna samfélagsábyrgð getur ekki oltið á því hvort stjórnendur hafa persónulegan áhuga á því, eða hvort þeir eru góðir einstaklingar, heldur er það beinlínis nauðsynlegt til að gæta langtíma-hagsmuna fyrirtækjanna. Ég vil því hvetja þá stjórnendur sem hér eru til að kynna sér starfsemi Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, ef þið hafið ekki þegar gert það, en þar er fyrir hendi góður samstarfsvettvangur fyrirtækja sem hafa metnað á þessu sviði.

Að svo mæltu er líklega rétt að slá botninn í þetta skemmtiatriði. Ég þakka VR aftur fyrir að viðhalda þessari mikilvægu hefð félagsins og óska stjórnendum og starfsfólki viðkomandi fyrirtækja innilega til hamingju með árangurinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum