Velferðarráðuneytið

Heilbrigðisráðherra býður fulltrúa smáríkja í Evrópu velkomna til fundar á Íslandi

Frá móttöku heilbrigðisráðherra með fulltrúum evrópskra smáríkja og framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofu WHO - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra bauð fulltrúa smáríkja í Evrópu velkomna til fundar sem haldinn verður á Íslandi í sumar, í móttöku sem Harald Aspelund, sendiherra og fastafulltrúa Íslands við Sameinuðu þjóðirnar í Genf hélt í sendiherrabústaðnum þar í borg í tilefni af 71. þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Evrópuskrifstofa WHO hefur frá árinu 2013 stutt samstarf átta smáríkja álfunnar sem eru Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Marínó og Ísland. Smáríkin eiga það sameiginlegt að íbúafjöldi hvers þeirra en innan við ein miljón.

Fimmti ráðherrafundur smáríkja WHO verður haldinn 26. -27. júní nk. í Reykjavík og hefur framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO Dr. Zsuzsanna Jakab þegið boð heilbrigðisráðherra um að sækja fundinn. Ræddar verða áskoranir og tækifæri sem felast í smæð þjóðanna og verður áhersla lögð á samstarf og samábyrgð stjórnvalda og alls samfélagsins við að stuðla að góðri heilsu og vellíðan íbúa. Þá verða ræddir þeir valkostir sem bjóðast smáríkjum við stefnumótun er varðar alhliða heilsuvernd, mikilvægi þrautseigju og seiglu í smáum samfélögum, fyrirbygging langvinnra sjúkdóma með áherslu á næringu og hreyfingu og áhrif loflagsbreytinga á heilsu og vatnsgæði. 

Í sendiherrabústaðnum í Genf hefur verið sett upp sýning á íslenskri list þar sem öll verkin tengjast sjálfbærni og mörg hver loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á vatn.  Heilbrigðisráðherra ávarpaði gesti í  móttökunni og sagði loftslagsbreytingar eina af helstu áskorunum sem heimurinn stæði frammi fyrir í dag. Mikilvægt væri að vernda heilsu fólks fyrir umhverfisáhrifum þar á meðal loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á ferskvatnsauðlindir, bráðnum jökla og hækkað yfirborð sjávar sem væri sérstakt áhyggjuefni fyrir eyríki.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn