Hoppa yfir valmynd
25. maí 2018 Forsætisráðuneytið

Samantekt um 4. iðnbyltinguna og hugsanleg tækifæri og áhrif á íslenskt samfélag

  - myndFranck V. á Unsplash

Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipaður verði vinnuhópur á vegum stjórnvalda sem skili samantekt til stjórnvalda um helstu álitamál er tengjast fjórðu iðnbyltingunni fyrir íslenskt samfélag. Fjallað var um málið á fundi ríkisstjórnarfundarinnar í morgun.

Hópurinn á að greina frá umræðu um fjórðu iðnbyltinguna á alþjóðavettvangi, afleiðingar hennar fyrir íslenskt samfélag og tækifæri Íslands í þessum breytingum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að mikilvægt sé að greina hvar Íslendingar geti verið gerendur þegar kemur að tækninni og hvar sé líklegra að þeir verði þiggjendur. Vinnuhópnum er m.a. ætlað að greina í hvaða geirum megi reikna með að framleiðni muni aukast og hvert sú arðsemi muni skila sér. Leggja þurfi mat á siðferðilegar spurningar tengdar tækniþróun og einnig hvaða álitamál muni vera uppi þegar kemur að laga- og regluverki. Í samantektinni verður gerð grein fyrir þeim álitamálum sem munu koma upp í tengslum við efnahagsmál, áhrifum á skattheimtu og tekjur ríkisins og gjöld, áhrifum á réttindi á vinnumarkaði, styttingu vinnuviku og breytt umhverfi ólíkra atvinnugreina.

Með þessu vilja stjórnvöld stuðla að umræðu um breytingarnar fram undan og með hvaða hætti íslenskt samfélag geti nýtt tæknibreytingar til góðs þannig að þær fái stuðlað að aukinni verðmætasköpun og betri lífsgæðum. Á þeim grunni geta stjórnvöld mótað stefnu í þessum málum og vísað einstökum álitamálum áfram til frekari vinnslu, til nýrrar framtíðarnefndar sem skipuð verður fulltrúum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi sem mun m.a. skoða hlutverk löggjafarvaldsins í breytingunum fram undan, Vísinda- og tækniráðs sem vinnur nú að stefnumótun um hlutverk vísinda til að takast á við samfélagslegar áskoranir, til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem þarf að skoða áhrifin á ólíkar atvinnugreinar og til aðila vinnumarkaðarins sem þurfa að fara yfir þau álitamál sem lúta að áhrifum á vinnumarkað.

Samantektin mun liggja fyrir í haust. Vinnuhópinn skipa:

  • Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton og stundakennari við Háskóla Íslands í vísindaheimspeki og vísindasögu
  • Ragnheiður H. Magnúsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum og formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs
  • Lilja Dögg Jónsdóttir, hagfræðingur og MBA frá Harvard háskóla
  • Dr. Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
  • Dr. Kristinn R. Þórisson, prófessor í tölvunarfræði við HR og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands

Eftir að samantektinni hefur verið skilað munu stjórnvöld standa fyrir ráðstefnu þar sem fjallað verður um Ísland og fjórðu tæknibyltinguna og leita eftir samtali við ólíka aðila í samfélaginu um efni hennar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum