Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Aukin umsvif íslenskra fyrirtækja í Japan og tækifæri til ungmennaskipta

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fór fyrir íslenskri viðskiptasendinefnd í ferð sinni til Japans sem lauk í dag.

“Það er gaman að fylgjast með velgengni íslensku fyrirtækjanna hér í Japan og þeim mikla áhuga sem hér er á íslenskri menningu. Tvísköttunarsamningur  ríkjanna tekur gildi um næstu áramót og mun hann greiða fyrir auknum viðskiptum milli ríkjanna,” sagði Guðlaugur Þór. “Þá er gleðiefni að hafa undirritað samkomulag sem gerir íslenskum og japönskum ungmennum kleift að dvelja í hinu ríkinu til að vinna og kynnast samfélaginu.” Í dag var stofnaður ferðasjóður á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Íslenska viðskiptaráðsins í Japan og Japansk-íslenska viðskiptaráðsins með framlögum frá átta fyrirtækjum sem mun styðja ungt fólk til  að nýta sér tækifæri sem samningurinn býður upp á.

Í ferð sinni fundaði Guðlaugur Þór með utanríkisráðherra, samgönguráðherra, dómsmálaráðherra, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og menntamálaráðherra Japans. Lagði hann mesta áherslu á að hefja þyrfti viðræður um fríverslunar- og loftferðasamninga milli ríkjanna en auk þess voru jafnréttismál, norðurslóðir og menningarmál til umræðu. Þá var rætt um sameiginlega hagsmuni í sjávarútvegi og útflutning á íslensku lambakjöti til Japans. Guðlaugur Þór var einnig sérstakur gestur japönsku hafrannsóknarstofnunarinnar, OPRI, þar sem hann ræddi sjálfbær viðskipti á norðurslóðum.

Í ferðinni heimsótti Guðlaugur Þór fjölmörg japönsk samstarfsfyrirtæki íslenskra fyrirtækja, m.a. á sviði upplýsingatækni, sjávarútvegs, endurnýjanlegrar orku og kvikmyndagerðar. Hann var einnig viðstaddur undirritun fjárfestingarsamnings fyrirtækisins Cargow og Asahi Tanker, um smíðar á skipi sem mun sinna álflutningum milli Íslands og Evrópu fyrir Alcoa. Þá var hann viðstaddur undirritun Mjólkursamsölunnar (MS), Takanawa og Nippon Luna sem hyggst hefja framleiðslu á Ísey skyri fyrir japanskan markað.

Ávarp ráðherra hjá japönsku hafrannsóknarstofnuninni, OPRI


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira