Hoppa yfir valmynd
1. júní 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Snorri Olsen skipaður ríkisskattstjóri frá 1. október

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið skipa Snorra Olsen tollstjóra í embætti ríkisskattstjóra frá og með 1. október 2018.

Snorri lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands árið 1984. Hann hóf störf í fjármálaráðuneytinu í apríl 1984 og gegndi þar m.a. starfi skrifstofustjóra á sviði skattamála. Snorri var settur ríkisskattstjóri á árunum 1995 til 1997.

Snorri hefur verið tollstjóri frá 1. október 1997. Á þeim tíma hefur embætti tollstjóra tekið miklum breytingum í ljósi samfélagsþróunar, ekki síst m.t.t. aukinnar rafvæðingar. Verkefni hafa verið sameinuð sem leitt hefur til aukinnar skilvirkni, hagræðingar og bættrar þjónustu. Sú þróun hófst árið 1998 þegar Gjaldheimtan í Reykjavík var sameinuð tollstjóranum í Reykjavík. Árið 2001 var embætti ríkistollstjóra lagt niður og verkefnin fluttust til tollstjórans í Reykjavík. Árið 2009 varð embætti tollstjóra til, tók við verkefnum annarra tollstjóra og landið varð eitt tollumdæmi.

Kjarnaverkefni tollstjóra eru tvö, annað á sviði tollamála og tolleftirlits og hitt er innheimta opinberra gjalda. Gert er ráð fyrir að embætti tollstjóra verði auglýst að loknum sumarleyfum.

Embætti ríkisskattstjóra var stofnað 1. október 1962. Í ársbyrjun 2010 voru embætti ríkisskattstjóra og níu skattstjóra sameinuð í eitt. Starfsmenn þess eru nú u.þ.b. 240 sem starfa víðs vegar um landið á átta starfsstöðvum. Meginverkefni ríkisskattstjóra er að annast álagningu skatta og gjalda og hafa með höndum skatteftirlit.

Á undanförnum árum hefur ríkisskattstjóri verið leiðandi í rafrænni stjórnsýslu og m.a. er gerð og skil skattframtala og annarra skýrslna nánast eingöngu rafræn. Af því tilefni hlaut ríkisskattstjóri og embættið upplýsingatækniverðlaun SKÝ árið 2016. Ríkisskattstjóri hefur á undanförnum tíu árum verið í fremstu röð í kjöri um stofnun ársins á vegum stéttarfélaga, og þar af fjórum sinnum í fyrsta sæti.

Ingvar J. Rögnvaldsson, settur ríkisskattstjóri, gegnir embættinu fram til 1.október. 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum