Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ræðumaður dagsins á sjómannadaginn í Grindavík

Forsætisráðherra ásamt björgunarsveitinni Þorbjörn í Grindavík - mynd
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók þátt í hátíðarhöldum í tilefni sjómannadagsins í Grindavík í dag og hélt ræðu.

Í ræðu sinni minntist Katrín þess að 80 ár eru liðin síðan haldið var upp á sjómannadaginn í fyrsta sinn og að á þessum degi væru þeim sem sækja sjóinn og fjölskyldum þeirra fagnað en um leið væru þeirra sem við höfum misst á sjó minnst. Þá kom hún inn á björgunarstarfið í Grindavík og hvernig forysta í björgunarstarfi hafi alla tíð einkennt bæinn. Í því samhengi rifjaði hún upp björgun áhafnar Skúla fógeta í apríl 1933:

„Önnur björgun er mér ofarlega í huga, þó meira af persónulegum ástæðum, en það er björgun áhafnarinnar á Skúla fógeta í apríl 1933. Togarinn strandaði hér í kafaldsbyl og það var ótrúlegt afrek bæði þeirra sjómanna sem komust af og björgunarsveitarmanna sem stóðu að björguninni að takast skyldi að bjarga 24 mönnum. En ekki tekst þó alltaf að bjarga öllum og þennan dag fórust 12 eða 13 manns, það er mismunandi samkvæmt heimildum. Meðal þeirra sem fórust voru langafi minn Jakob Bjarnason og afabróðir minn Gunnar Jakobsson. Við afkomendur Jakobs komum aldrei hingað til Grindavíkur án þess að minnast hans og sonar hans.“

Katrín var einnig við hátíðarmessu í Grindavíkurkirkju þar sem Sr. Elínborg Gísladóttir þjónaði fyrir altari. Eftir messuna var gengið niður í Sjómannagarðinn þar sem krans var lagður að minnisvarðanum Von að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira