Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Framúrskarandi kennarar verðlaunaðir

Framúrskarandi kennarar verðlaunaðir - myndHÍ / Kristinn Ingvarsson
Yfir 1000 tilnefningar bárust menntavísindasviði Háskóla Íslands sem á dögunum leitaði eftir ábendingum um framúrskarandi kennara á Íslandi. Fjórir þeirra voru síðan verðlaunaðir við hátíðlega athöfn í dag, auk þess sem sérstök hvatningarverðlaun voru veitt.

Markmiðið með þessu framtaki menntavísindasviðs er að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar geta haft bæði á einstaklinga og samfélagið í heild. Einkar ánægjulegt var hversu margar ábendingar bárust en valnefnd, skipuð fulltrúum HÍ, KÍ og kennaranema, fór yfir tilnefningar samkvæmt ákveðnum viðmiðum.

Við athöfnina afhenti mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningu fyrir framlag sitt til kennslu: Gísla Hólmari Jóhannessyni kennara hjá Keili, Söru Diljá Hjálmarsdóttur í Höfðaskóla, Sigríði Ásu Bjarnadóttur sem starfar á leikskólanum Teigaseli og Valdimari Helgasyni kennara í Réttarholtsskóla. Hvatningarverðlaunin í ár hlaut Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari við Árskóla, fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

„Starf kennara byggir á sjálfstæði þeirra og fagmennsku, næmni fyrir einstaklingnum og þeim ólíku leiðum sem henta nemendum til að byggja upp hæfni sína. Kennarar eru mikilvægir áhrifavaldar í lífi sinna nemenda – þeir eru fyrirmyndir og eitt mikilvægasta hreyfiafl okkar til góðra verka og framfara í íslensku menntakerfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni. „Ég óska þessum frábæru og framúrskarandi kennurum hjartanlega til hamingju með þessa útnefningu og færi þeim þakkir fyrir sín mikilvægu störf.“


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn