Hoppa yfir valmynd
6. júní 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundaði með upplýsingatæknimálaráðherra Indlands

Bjarni Benediktsson ásamt S.S. Ahluwalia, upplýsingatæknimálaráðherra Indlands, og indverskri sendinefnd, að loknum fundi ráðherranna í dag.  - mynd

Ráðherra upplýsingatæknimála Indlands S.S. Ahluwalia, heimsótti í dag fjármála- og efnahagsráðuneytið og fundaði með Bjarna Benediktssyni. Í för ráðherranum voru stjórnendur í ráðuneyti hans ásamt sendiherra Indlands á Íslandi Hr. Rajiv Kumar Nagpal.

Á fundinum fjallaði fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu upplýsingatæknimála á Íslandi, þ.á.m. öfluga upplýsingatækniinnviði sem byggðir hafa verið upp á undanförnum árum og stofnun verkefnastofu innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem stýrir innleiðingu upplýsingatækniverkefna þvert á stjórnsýsluna, undir merkjum Stafræns Íslands. Verkefnin sem unnið er að snúa að uppfærslu á Ísland.is, bættu pósthólfi á Ísland.is sem opnað var fyrir almenningi 31. maí síðastliðinn, auk verkefna sem snúa að bættri samvirkni milli upplýsingakerfa ríkisins, auknum samrekstri upplýsingakerfa og sameiginlegum innkaupum á hugbúnaðarleyfum og upplýsingatæknibúnaði.

Indverski ráðherrann sagði frá átaki indverskra stjórnvalda til næstu fjögurra ára sem gengur undir nafninu Digital India. Í samtali ráðherrana kom fram að báðar þjóðir hafa sett sér svipuð markmið sem miða að því að auka og bæta stafræna opinbera þjónustu. Indverjar hafa m.a. byggt upp öflugt stafrænt auðkenni í ætt við þau rafrænu skilríki sem notuð eru á Íslandi. Um 400 milljónir Indverja hafa aðgang að netinu og markmið þarlendra stjórnvalda er að auka það aðgengi verulega á næstu árum. Þá er það reynsla beggja þjóða að bætt stafræn þjónusta hins opinbera eykur bæði gagnsæi og traust.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum