Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Hlutur kynjanna í nefndum ráðuneytanna aldrei jafnari

Velferðarráðuneytið Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið

Hlutur kynjanna í nefndum ráðuneytanna hefur aldrei verið jafnari, hvort heldur litið er til allra starfandi nefnda eða nýskipana á starfsárinu 2017. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Jafnréttisstofu um kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Stjórnarráðsins.

Samkvæmt 15. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 á hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Tilnefningaraðili á að tilnefna karl og konu, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu.

Árið 2017 störfuðu 3.270 manns í nefndum á vegum ráðuneytanna, 1.558 konur og 1.712 karlar, eða 48%/52%. Á starfsárinu voru 956 manns skipaðir í nýjar nefndir, 483 konur og 473 karlar, hlutföllin eru því 51% kvenna á móti 49% karla.

Árið 2017 störfuðu 593 nefndir á vegum ráðuneytanna, 413 af þeim voru skipaðar í samræmi við 15. grein jafnréttislaga eða 70% starfandi nefnda. Á starfsárinu 2017 voru 170 nýjar nefndir skipaðar, 139 af þeim eða 82% voru skipaðar í samræmi við 15. greinina. Það er hæsta hlutfall nefnda sem skipaðar eru í samræmi við 15. greinina, bæði þegar skoðaðar eru nefndir sem eru starfandi og nýskipanir. Þessi þróun er mjög ánægjuleg og ljóst er að verklag við skipanir í nefndir innan ráðuneytanna er að festast í sessi.

Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga og fær upplýsingar um skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna í árlegri greinargerð frá jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira