Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Fyrsta grænbókin í umsagnarferli

Grænbók um hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál er nú í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda. Hún er liður í samráði um stöðumat, lykilviðfangsefni og áherslur á þessu málefnasviði. Opið er fyrir innsendingu umsagna til og með 15. ágúst næstkomandi. 

Grænbókin fjallar um málefnasvið 6 í fjármálaáætlun en viðfangsefnum ríkisins hefur verið skipt upp í  34 svið. Kynnt eru drög að áherslum fyrir málefnasviðið og snúast þær meðal annars um að auka samvirkni og gagnaflæði milli opinberra kerfa, að rafræn sjálfsafgreiðsla verði fyrsti kostur í þjónustu opinberra aðila, aðeins þurfi að skrá upplýsingar um almenning og fyrirtæki einu sinni og vottorð og staðfestingar frá opinberum aðilum fari rafrænt á milli stofnana.

Þá er lögð áhersla á að opinber kerfi standist sjálfsagðar kröfur um öryggi og persónuvernd og að auka gegnsæi í stjórnsýslunni með greiðum aðgangi almennings og hagsmunaaðila að upplýsingum um sig, sína hagi og réttindi hjá opinberum aðilum og einnig með því að fjölga opnum gagnagrunnum í gáttinni opingogn.is. 

Þrjár stofnanir fara með verkefni á málefnasviði 6, Hagstofa Íslands, Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands. Starfsemi á málefnasviðinu er því á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og forsætisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn