Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra sótti fund Schengen ríkja í Austurríki.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heilsaði Herbert Kickl innanríkisráðherra Austurríkis við komuna á fundinn. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sótti óformlegan fund dóms- og innanríkisráðherra Schengen ríkjanna sem haldinn var í Innsbruck, Austurríki, fimmtudaginn 12. júlí 2018 en Austurríki tók við formennsku í ráðinu 1. júlí 2018.

Til umræðu á fundinum var styrking ytri landamæra Schengen-svæðisins og aukið öryggi innan Evrópu með tilliti til heildarstefnu ríkjanna í útlendingamálum. Rætt var um styrkingu landamærastofnunar Evrópu (Frontex) og lögð fram tillaga um að verulega stækkun stofnunarinnar á skömmum tíma og fjölgun landamæravarða á ytri landamærum. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vakti athygli á því að hraður vöxtur Frontex sem kallar á aukið framlag aðildarríkja í formi mannauðs og tækja mætti ekki verða á kostnað getu aðildarríkjanna til að standa að viðunandi landamæravörslu á heimavelli með tilliti til fjölgunar ferðamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá yrði að liggja fyrir að allur aukinn kostnaður væri í samræmi við markmið og raunhæfar væntingar um árangur.

Ráðherrar aðildarríkjanna lögðu einnig mikla áherslu á að efla þyrfti samskipti Evrópuríkja við þriðju ríki vegna endursendinga einstaklinga sem hljóta ekki alþjóðlega vernd í Evrópu. Þá var hvatt til þess að Schengen ríkin hyggðu betur að aðstoð við þau ríki þaðan sem umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa komið í ríkum mæli. Dómsmálaráðherra tók undir það og hvatti jafnframt til þess að aðildarríkin legðu ekki aðeins áherslu á fjárhagslegan stuðning í þessu samhengi heldur hyggðu einnig að forsendum viðskiptasambanda evrópsku ríkjanna við þessi ríki.

Á fundinum var  lögreglusamvinna í Evrópu einnig rædd, t.d. í baráttunni gegn mansali og smygli á einstaklingum.

 

  • Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra tók til máls á fundinum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira