Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mikilvægi Evrópusamvinnu fyrir rannsóknir og nýsköpun

Vinna er hafin við níundu rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, Horizon Europe, og birti framkvæmdastjórn ESB drög að henni í byrjun júní. Áætlunin mun gilda á árunum 2021-2027 og er ætlað að efla rannsóknir og nýsköpun með það markmið að auka samkeppnishæfni Evrópu. Meðal nýjunga í áætluninni er aukið fjármagn til nýsköpunar, áhersla á stór þverfagleg verkefni, opinn aðgang að þekkingu og einföldun regluverks.

Ísland hefur tekið virkan þátt í samstarfsáætlunum ESB og hefur árangur af sókn íslenskra aðila í evrópskar samkeppnisáætlanir hefur verið góður í samanburði við önnur Evrópuríki. Þátttaka Íslands í rannsókna- og nýsköpunaráætlunum ESB hefur skapað grunn að víðtæku samstarfi íslenskra stofnana og fyrirtækja við erlenda aðila. Fjárhagslegur ávinningur Íslands hefur verið umtalsverður, slíkir styrkir ESB hafa verið um tvöfalt hærri á síðustu árum en sú upphæð sem ríkissjóður greiddi vegna aðildar á sama tímabili. Fjárfesting ESB og samstarfsríkja í verkefnum styrktum af Horizon 2020, sem íslenskir aðilar hafa tekið þátt í frá byrjun árs 2014 til mars 2018, nemur um 79 milljörðum kr. en þar af nema beinir styrkir til íslenskra aðila um 7,6 milljörðum kr.

EES-samningurinn liggur til grundvallar þátttöku Íslands í rammaáætlunum ESB og vinna Ísland og Noregur nú að því í sameiningu að tryggja að nýja rannsóknaáætlunin taki tillit til sérstöðu EES/EFTA-ríkjanna í þessu samhengi líkt og fyrri áætlanir hafa gert.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira