Hoppa yfir valmynd
3. september 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ásamt Viðari Magnússyni og Elsu B. Friðfinnsdóttur, formanni starfshópsins - myndVelferðarráðuneytið

Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fól að skoða möguleika á aukinni aðkomu þyrlna að sjúkraflugi skilaði ráðherra skýrslu með tillögum sínum í dag. Hópurinn skoðaði tvær leiðir í þessu skyni; annars vegar með aukinni aðkomu Landhelgisgæslu Íslands sem m.a. myndi reka sérstaka sjúkraþyrlu og hins vegar með rekstri sjúkraþyrlu sem rekin væri af öðrum en Landhelgisgæslunni.

Starfshópurinn segir í skýrslu sinni að þörfin fyrir sjúkraflutninga með þyrlum muni fara vaxandi hér á landi. Helstu ástæðurnar fyrir því eru vaxandi sérhæfing í meðferð bráðra veikinda og slysa, minnkandi geta heilbrigðisstofnana í dreifbýli til að sinna  bráðaþjónustu, almenn aukning sjúkraflutninga og ekki síst mikil fjölgun alvarlegra slysa. Til marks um aukningu sjúkraflutninga jókst umfang þeirra á árunum 2014 – 2017 um 37% þar sem mest var, þ.e. á Suðurlandi, Suðurnesjum og á Akureyri.

Elsa og Viðar greina ráðherra frá tillögum starfshópsinsStarfshópurinn er einhuga um mikilvægi þess að auka eins og kostur er sjúkraflutninga með þyrlum, bæði vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu stofnana, ekki hvað síst í Vestmannaeyjum, en einnig vegna mikillar fjölgunar ferðamanna, á og utan alfaraleiða.  Það er einnig sameiginleg áhersla hópsins að skilgreina beri sjúkraflug með þyrlum sem heilbrigðisþjónustu og beri því að manna áhafnir þeirra í samræmi við það. Einnig að mikilvægt sé að viðbragðstími sjúkraþyrlu sé ávallt sem stystur. Þrátt fyrir sameiginlegar áherslur í þessum efnum voru fulltrúar í starfshópnum ekki á einu máli um leiðir að markmiðinu.

Fimm af sjö fulltrúum starfshópsins leggja til að viðbragð Landhelgisgæslunnar verði styrkt með fleiri áhöfnum svo unnt verði að koma á staðarvöktum, þ.e. með áhöfn sem er í viðbragðsstöðu þar sem viðkomandi þyrla á bækistöð. Tveir fulltrúar starfshópsins leggja hins vegar til rekstur sérstakrar sjúkraþyrlu með sérhæfðum mannskap og að reksturinn verði ekki á hendi Landhelgisgæslunnar.

Í meðfylgjandi skýrslu er fjallað ítarlega um tillögur hópsins til heilbrigðisráðherra, faglegar áherslur og kostnað. Ráðherra mun fela sérfræðingum ráðuneytisins að leggja mat á efni skýrslunnar og tillögurnar sem þar koma fram og ákveða næstu skref í framhaldi af því.

Starfshópurinn var svo skipaður:

  • Elsa B. Friðfinnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, formaður.
  • Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
  • Ólafur Gunnarsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
  • Sigurður Einar Sigurðsson, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands,
  • Inga Þórey Óskarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu,
  • Sandra M. Sigurjónsdóttir, tilnefnd af Landhelgisgæslu Íslands,
  • Viðar Magnússon, tilnefndur af fagráði sjúkraflutninga.

Sjúkraflug með þyrlu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum