Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Náttúruminjasafnið sýnir í Perlunni

Náttúruminjasafnið sýnir í Perlunni - myndRagnar Th. Sigurðsson
Náttúruminjasafn Íslands fær til afnota 350 fm hæð í Perlunni og mun setja þar upp nýja sýningu, Vatnið í náttúru Íslands. Sýningin verður opnuð 1. desember nk. og verður opnunin liður í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlu norðursins undirrituðu samning þess efnis á dögunum að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

„Þetta er afar mikilvægt skref í sögu Náttúruminjasafnsins, eins okkar höfuðsafna, sem fær hér góða aðstöðu til sýningahalds. Ég hlakka til að sækja safnið heim þegar sýningin verður opnuð í vetur. Mér finnst einkar gott til þess að vita að hér mun unga kynslóðin fá frábært tækifæri til þess að kynnast náttúru landsins gegnum vandaðar sýningar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Á sýningunni verður fjallað um vatn í víðum skilningi, allt frá hinu smæsta til hins stærsta, frá dropanum til heilla vatnasviða og veðurkerfa, frá sameindum til stórra eininga og frá örverum og plöntum til stærstu vatnadýra. Sýningunni er ætlað að höfða til fróðleiksfúsra landsmanna og erlendra gesta, fólks á öllum aldri og ekki síst til barna. Markmið hennar verður að vekja aðdáun og virðingu fyrir vatni og fræða gesti um undur og furður náttúrunnar og mikilvægi vatns fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu.

Náttúruminjasafn Íslands stendur straum af stofnkostnaði sýningarinnar en samkvæmt ákvæðum samningsins fær safnið rýmið í Perlunni til afnota endurgjaldslaust í 15 ár, en Perla norðursins greiðir rekstrarkostnað og tvö ársverk safnkennara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira