Hoppa yfir valmynd
13. september 2018 Innviðaráðuneytið

Áherslur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í fjárlagafrumvarpi 2019

Frá Ísafirði - myndHugi Ólafsson

Heildarframlag til samgöngumála nemur um 41,3 milljörðum króna og eykst um 12,3% á milli ára. Samstaða hefur verið á meðal almennings og þingmanna um að forgangsraða þessum mikilvæga málaflokki. Þannig hafa fjárveitingar til samgöngumála hækkað um 12 milljarða undanfarin þrjú ár. Myndin sýnir þróun fjárveitinga til nokkurra liða samgöngumála undanfarin ár.

 

Mest er aukning til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu, þannig er áætlað að verja um 23,5 milljörðum króna við nýframkvæmda á vegum og brýns viðhalds.

Framlag til annarra verkefna samgöngumála hækkar nánast á öllum sviðum. Framlag til þjónustu á vegakerfinu, það er almenn þjónusta og snjómokstur og hálkuvarnir að vetri, eykst um 708 milljónir á milli ára. Þá hækka styrkir til almenningssamgangna um 161 milljón og framlag til flugvalla hækkar um 336 milljónir á milli ára.

Skammt er að bíða frétta af áætlunum í samgöngumálum, en síðar í mánuðinum mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um stefnumótandi samgönguáætlun til næstu 15 ára og aðgerðaráætlun sama efnis til næstu 5 ára.

Áfram verður unnið að því að bæta fjarskipti á svæðum þar sem er markaðsbrestur. Komandi ár er fjórða árið sem ríkið styrkir ljósleiðaravæðingu sveitarfélaga með fjárveitingum gegnum fjarskiptasjóð, sem hefur numið um 450 milljónum ár hvert. Nú þegar hefur verið samið um styrki til ljósleiðaratengingar um 4.000 staða en á næstu þremur árum verður samið um þá 1.500 staði sem eftir standa. Stefnumótandi fjarskiptaáætlun fyrir næstu 15 ár og aðgerðaráætlun til 5 ára verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi.

Á málefnasviði sveitarfélög og byggðamál er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga langstærstur með fyrirhuguð útgjöld upp á um 21 milljarð, sem er aukning um 5% á milli ára.

Framlög til byggðamála aukast um 4,9% og nema nú um 2 milljörðum króna. Þar af fer ríflega helmingur til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta eða tæplega 1,1 milljarður króna. Fjárveitingar til þessara áætlana hafa hækkað mikið frá árinu 2014 þegar þær námu ríflega 400 milljónum króna.

Frekari upplýsingar er að finna í nýsamþykktri byggðaáætlun fyrir árin 2018-2022.

 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum