Hoppa yfir valmynd
13. september 2018

Staða forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands

Staða forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands er laus til umsóknar.

Hlutverk Kvikmyndasafns Íslands er að safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir sem og samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi, þ.m.t. að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Kvikmyndasafnið hefur eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Safnið stendur fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist, sér um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins og skapar fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir og efla kvikmyndamenningu á Íslandi, sbr. III. kafli laga nr. 137/2001. Nánari upplýsingar um safnið er að finna á vefsíðu þess. 

Hæfnikröfur
Forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og góða reynslu og þekkingu á sviði kvikmynda- og safnamála að mati þriggja manna dómnefndar sem mennta- og menningarmálaráðherra skipar. Leitað er eftir einstaklingi með stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, reynslu af stefnumótunarvinnu, hæfileika til nýsköpunar og að stýra breytingum. Þekking og reynsla af stjórnsýslu, fjármálum og rekstri er einnig mikilvæg.

Starfssvið
Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri safnsins og er mikilvægt að umsækjendur hafi skýra framtíðarsýn hvað þetta varðar. Hann ræður starfsmenn og er í fyrirsvari fyrir safnið. Hann ber ábyrgð á rekstri safnsins og að starfsemi þess sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt.

Ráðning og kjör
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar forstöðumann til fimm ára frá 1. janúar 2019. Um réttindi og skyldur forstöðumanns fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, með síðari breytingum. Um laun forstöðumanns fer eftir 39. gr. a þeirra laga.

Umsóknir
Umsóknir með greinargerð umsækjenda (út frá faglegum og rekstrarlegum áherslum) með upplýsingum um núverandi starfsheiti umsækjenda og ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf, skulu hafa borist mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík eða á netfangið [email protected], eigi síðar en föstudaginn 29. september 2018.

Nöfn allra umsækjenda verða birt á vef ráðuneytisins að loknum umsóknarfresti og verða umsóknir þar sem óskað er nafnleyndar ekki teknar til greina. Nánari upplýsingar um starfið veitir rekstrarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Umsóknarfrestur er til og með 29. september 2018.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 10. september 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum