Velferðarráðuneytið

Ásmundur Einar ræðir aukið samstarf við Finna á sviði húsnæðismála

Ráðherrarnir Ásmundur Einar og Kimmo Tiilikainen - myndvelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, er nú staddur í Finnlandi þar sem hann ræðir meðal annars við þarlend stjórnvöld um aukið samstarf í húsnæðismálum. Ásmundur átti í dag fund með Kimmo Tiilikainen, ráðherra húsnæđismála í Finnlandi.

Finnar hafa þótt ná góðum árangri á sviði húsnæðismála þar sem markaðurinn hefur meðal annars einkennst af stöðugleika og byrði lágtekjuhópa vegna húsnæðiskostnaðar hefur verið lægri en annars staðar á Norðurlöndunum.

Ásmundur Einar fagnar auknu samstarfi og segir Íslendinga geta læra margt af Finnum í húsnæðismálum: „Félagslegar áherslur finnskra stjórnvalda með miklu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og opinberra stofnana hefur skilað árangri. Jafnframt hafa finnsk stjórnvöld með beinum hætti lagt áherslu á uppbygginu hagkvæms húsnæðis án hagnaðarsjónarmiða. Ísland sem samfélag á að geta gert betur í húsnæðismálum en til þess þurfum við að hugsa í stærri lausnum og samstarf við Finna mun skipta miklu máli í því sambandi“ segir Ásmundur Einar.

Húsnæðisstefna finnskra stjórnvalda einkennist af öflugu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og opinberra stofnana. Húsnæðisstofnunin ARA, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs í Finnlandi, styður við uppbyggingu félagslegs húsnæðis með styrkjum, vaxtaniðurgreiðslum og ábyrgðum. Stofnunin hefur aðkomu að um 20% allra íbúða sem byggðar eru í Finnlandi og er m.a. aðili að samkomulagi ríkis og sveitarfélaga á Helsinki-svæðinu um uppbyggingu 60.000 íbúða árin 2016-2019.

Í fjármálakreppunni var aðkoma ARA að húsnæðisuppbyggingu stóraukin og þannig var stuðlað að auknum stöðugleika á byggingamarkaði á meðan kreppan gekk yfir. Sú reynsla sýnir hvernig öflug opinber húsnæðisstofnun getur ekki aðeins stuðlað að nægilegu framboði af húsnæði fyrir alla félagshópa heldur einnig stöðugleika á húsnæðismarkaði.

Ríkisrekna leigufélagið A-Kruunu var stofnað árið 2013 og er til marks um áhrifaríka og heildstæða nálgun finnskra stjórnvalda í húsnæðismálum. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og leggur áherslu á nýbyggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis. Við val á leigutökum er forgangsraðað eftir félagslegum þörfum, eignum og tekjum og þannig styður félagið við uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðs fyrir alla samfélagshópa.

A-Kruunu hefur þá stefnu að byggja 400 leiguíbúðir á Helsinki-svæðinu á ári hverju og við val á byggingarsvæðum er meðal annars horft til áhrifa á atvinnumyndun á svæðinu. Allar íbúðir félagsins eru staðsettar nærri þjónustu og samgöngum og eftirspurnin eftir íbúðunum hefur verið mikil enda er leigan hagkvæm.


  • Hannu Ahola Housing, sérfræðingur hjá ARA, Jarmo Linden forstjóri ARA, Mirka Saarholma, yfirmaður þjónustusviðs hjá félagslega leigufélaginu Heka í Helsinki, Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra  Árni Þór Sigurðsson, sendiherraog Ingi Valur Jóhannsson sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
  • Ásmundur Einar og Mirka Saarholma sem stýrir þjónustusviði félagslega leigufélagsins Heka í Helsinki. Í baksýn sjást byggingaframkvæmdir á vegum opinberra aðila og leigufélagsins A-kruunu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn