Velferðarráðuneytið

Dómur í máli sérgreinalæknis undirstrikar þörf á öðru fyrirkomulagi samninga

Svandís SvavarsdóttirHeilbrigðisráðherra mun ekki áfrýja niðurstöðu héraðsdóms í máli sérgreinalæknis varðandi aðild að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands. Ráðherra segir niðurstöðu dómsins undirstrika nauðsyn þess að núverandi fyrirkomulag verði endurskoðað með gerð nýrra samninga á öðrum grunni. Byggja þurfi á leiðsögn Ríkisendurskoðunar um að ríkið sem greiðandi þjónustunnar skuli ávallt hafa frumkvæði að því hvaða heilbrigðisþjónusta er keypt, í hvaða magni og af hverjum.

Með dóminum er staðfest að réttur sérgreinalækna til aðildar að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands er ekki einhliða, heldur háður matskenndu ákvörðunarferli. Eins er þar staðfest að ráðherra er bæði heimilt og skylt að grípa til ráðstafana ef þörf krefur vegna ábyrgðar hans á framkvæmd fjárlaga og fjáraukalaga. Það er hins vegar skýrt að það þarf að fara fram faglegt mat á hverri umsókn læknis um aðild að rammasamningnum áður en ákvörðun er tekin um hvort hann fær aðild að honum eða ekki.

Næstu skref

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir greinargerð af hálfu velferðarráðuneytisins þar sem raktir verða allir málavextir sem snúa að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við sérgreinalækna, allt frá því að ákvörðun um að loka samningnum var tekin í desember 2015: „Það þarf að skýra þetta mál að fullu, fara yfir verkferla innan ráðuneytisins, skoða rekjanleika ákvarðana, gagnsæi og röksemdafærslur að baki þeim. Eins þarf að fara yfir samskipti ráðuneytisins og stofnana þess í málinu og hvernig þeim hefur verið háttað og loks þarf að skoða hvernig samningnum var framfylgt af hálfu Sjúkratrygginga Íslands áður en honum var lokað“ segir Svandís.

Sérfræðingar velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands munu nú fara yfir niðurstöðu héraðsdóms til að ákveða næstu skref. Greina þarf réttaráhrif dómsins og hvernig unnt sé að vinna á grundvelli rammasamningsins meðan hann er enn í gildi. Ráðuneytið hefur óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að stofnunin leggi fram áætlun um framkvæmd samningsins þar sem meðal annars verði skýrt hvernig staðið verði að því að meta umsóknir lækna um aðild að samningnum í samræmi við niðurstöður dómsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn