Hoppa yfir valmynd
26. september 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisábyrgðir á afleiðusamningum Landsvirkjunar fólu ekki í sér ríkisaðstoð

Mynd/Landsvirkjun - mynd

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnti í dag um niðurstöðu sína þess efnis að ríkisábyrgðir á afleiðusamningum Landsvirkjunar, sem höfðu verið til athugunar af hálfu stofnunarinnar undanfarin misseri, hafi ekki falið ekki í sér ríkisaðstoð.

Landsvirkjun gerir afleiðusamninga til að verjast gengis- og vaxtaáhættu í skuldasafni sínu og var íslenska ríkið lengi vel í ábyrgð fyrir þeim samningum. Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins er hvers kyns ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum almennt ósamrýmanleg framkvæmd samningsins, hafi hún áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Í greininni er að finna undanþágur að því er varðar aðstoð sem talin er samrýmast framkvæmd samningsins.

Auk beinna fjárframlaga geta lán og ábyrgðir falið í sér ríkisaðstoð. Í leiðbeinandi reglum ESA um ríkisaðstoð er sérstaklega fjallað um ríkisábyrgðir, sem geta gefið fyrirtækjum möguleika á að ná betri kjörum en almennt bjóðast á fjármálamörkuðum, t.d. hvað varðar vexti. Árið 2011 voru gerðar breytingar á lögum um Landsvirkjun sem fólust í því að ríkisábyrgðargjald vegna ríkisábyrgða á lánum fyrirtækisins endurspeglar að fullu hag þess af ábyrgðinni. Greiðsla hæfilegs ábyrgðargjalds gerir það að verkum að ábyrgðir vegna lána fela ekki í sér ríkisaðstoð.

Með ákvörðun ESA fékkst staðfest að ríkisábyrgðir sem veittar voru vegna gjaldmiðlasamninga og vaxtaskiptasamninga, sem Landsvirkjun gerir til að stýra gengis- og vaxtaáhættu í rekstri sínum, fólu ekki sér ívilnun og þar af leiðandi fólst ekki ríkisaðstoð í ábyrgðunum. Frá árinu 2010 hefur Landsvirkjun gert slíka samninga án ríkisábyrgðar, án þess að það hafi haft áhrif á kjör samninganna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira