Hoppa yfir valmynd
28. september 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum lýkur

Með lögum nr. 45/1990 var þáverandi ríkisstjórn heimilað að semja við hlutafélag um byggingu Hvalfjarðarganga og rekstur þeirra um tiltekinn tíma. Framkvæmdir og rekstur skyldu fjármagnast af umferðargjaldi. Þessi lög lögðu grunninn að árangursríkri framkvæmd sem reynst hefur mikil samgöngubót fyrir alla landsmenn, fjármögnuð af þeim sem hana nota. Laust eftir kl. 13:00 í dag verður gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum hætt og á sunnudaginn kl. 15:00 mun Spölur ehf. afsala göngunum til ríkissjóðs. Formleg afhending Hvalfjarðarganga og undirritun samnings þar um verður við norðurmunna ganganna sunnudaginn 30. september kl. 15:00. Göngin verða eign þjóðarinnar.

Vakin er athygli á að Spölur tekur við veglyklum gegn skilagjaldi, greiðir út inneignir á áskriftarreikningum og borgar fyrir ónotaða afsláttarmiða sem skilað er til 1. desember nk. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Spalar.

Ráðuneytið þakkar Speli ehf. fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og óskar landsmönnum öllum til hamingju með göngin sín.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira