Hoppa yfir valmynd
28. september 2018 Innviðaráðuneytið

Grænbók um fjarskipti, netöryggismál, póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands til umsagnar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt grænbók um fjarskipti, netöryggismál, póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands til umsagnar í samráðsgáttinni. Grænbókin er liður í opnu samráði um stöðumat, lykilviðfangsefni og áherslur í þessum málaflokki. Opið er fyrir innsendingu umsagna til og með 12. október næstkomandi.

Grænbókin fjallar um málaflokkinn 11.2 í fjármálaáætlun en viðfangsefnum ríkisins hefur þar verið skipt upp í  34 svið. Kynnt eru drög að áherslum fyrir málaflokkinn og snúast þær meðal annars um ljósleiðaramál, sæstrengi, farnet, netöryggi, raunlægt öryggi, afnám einkaréttar í pósti, grunnskrár og rafræna þjónustu Þjóðskrár Íslands.   

Samkvæmt fjármálaáætlun skal liggja fyrir stefna fyrir hvert málefnasvið og málaflokk sem m.a. skal kynna í greinargerð með fjármálaáætlun hvers árs. Tvær stofnanir, Póst- og fjarskiptastofnun og Þjóðskrá Íslands, ásamt einu opinberu fyrirtæki,  Íslandspósti, fara með verkefni í málaflokki 11.2.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 12. október nk. í samráðsgáttina.

Sjá í samráðsgátt.

 

Grænbók - hluti af stefnumótunarferli stjórnvalda

Grænbók er umræðuskjal sem lagt er fram í opnu samráði í samráðsgátt. Grænbókinni er ætlað að hvetja til umræðu um afmarkað viðfangsefni, núverandi stöðu og mögulegar áherslur í stefnu sem að loknu samráðsferli verður útfærð í hvítbók og birt í kjölfarið.

Við gerð grænbókar er almenningi og hagsmunaaðilum boðið að taka þátt og leggja fram sjónarmið um áherslur, mögulegar lausnir eða leiðir að árangri.

Í grænbók eru upplýsingar um viðfangsefni málefnasviðsins/málaflokksins, stöðu, tölfræði, samanburð við önnur lönd og umfjöllun um ólíkar leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa.

Að loknu samráði um grænbók er mótuð hvítbók þar sem fjallað er um niðurstöður samráðs, framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, markmið og aðgerðir sem stjórnvöld áforma að leggja til í nýrri stefnu. Hvítbók er í raun „drög að opinberri stefnu“ eða tillögum stjórnvalds um skilgreint verkefni eða málefni, áskoranir þess, þróun og samhengi.

Þegar hvítbók liggur fyrir fá almenningur og hagsmunaaðilar aftur tækifæri til þess að koma á framfæri ábendingum sínum og sjónarmiðum í formlegu samráðsferli áður en endanleg afstaða er mótuð í formlega stefnu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum