Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hvalfjarðargöng formlega afhent íslenska ríkinu

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar ehf. og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra - mynd

Í gær undirritaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hönd ríkisins samning um afhendingu Hvalfjarðarganga til íslenska ríkisins. Undirritun samningsins fór fram við hátíðlega athöfn við norðurmunna ganganna kl. 15:00. Við sama tilefni undirrituðu samningsaðilar afsal þar sem Spölur ehf. lýsir því yfir að íslenska ríkið sé nú réttur og löglegur eigandi Hvalfjarðarganganna. Strax í kjölfar undirritunarinnar bauð Spölur viðstöddum til móttöku á Akranesi.

Við hátíðarhöldin í gær tóku til máls auk samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar ehf. og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Kom fram í máli allra einhugur um að Hvalfjarðargöngin hefðu verið mikið gæfuspor í samgöngum á landinu. Ávinningur íbúa á Vesturlandi er líklega einna mestur með stærri vinnumarkaði og skólasóknarsvæði, lægri ferðakostnaði, hærra fasteignaverði, hagstæðara vöruverði og þannig mætti lengi telja. Ávinningurinn fyrir landsmenn alla er þó einnig mikill enda styttist leiðin norður um land um 42 km með tilkomu Hvalfjarðarganganna svo ekki sé minnst á þau jákvæðu áhrif á umferðaröryggi sem framkvæmdin hefur haft.

Hvalfjarðargöngin eru vel heppnuð einkaframkvæmd í samgöngum sem staðist hefur allar þær væntingar sem til hennar stóðu og hefur nú verið skilað til ríkisins í samræmi við áætlanir. Nú tekur Vegagerðin við rekstri ganganna og er það yfirlýstur ásetningur hennar að reka þau af sama myndarskap og fyrrum eigendur.

Enn og aftur þakkar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið Speli fyrir traust og gott samstarf í gegnum árin.

  • Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar ehf. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira