Hoppa yfir valmynd
3. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Auknar eftirlitsheimildir vegna brotastarfsemi á vinnumarkaði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segist binda vonir við að ný lög sem auka heimildir Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar við eftirlit á vinnustöðum og veita víðtækari heimildir til að miðla upplýsingum sín á milli og til ríkisskattstjóra og lögreglu, muni torvelda markvissa brotastarfsemi á vinnumarkaði. Háttsemi af því tagi sem lýst var í fréttaskýringaþættinum Kveiki í gær verði að stöðva og draga þá sem brotin fremja til ábyrgðar.

Lögin sem ráðherra vísar til eru lög um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og fleiri lögum sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum og tóku gildi að fullu 1. ágúst sl. Markmið laganna er að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem erlend fyrirtæki senda tímabundið hingað til lands séu í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga og einnig að bæta yfirsýn stjórnvalda yfir eðli og umfang þessara mála.

Nýju lögin eru afrakstur samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þar sem farið var yfir helstu brotalamir sem eftirlitsaðilar höfðu rekið sig á við vinnustaðaeftirlit. Með þeim er skerpt á heimildum Vinnumálastofnunar til eftirlits með starfsmannaleigum og ábyrgð þeirra sem nýta sér þær hér á landi, meðal annars á lágmarkslaunum aukin. Auk þess er kveðið á um greiðari upplýsingagjöf milli Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins og auknar heimildir þeirra til að miðla upplýsingum til ríkisskattstjóra og lögreglu þegar grunur leikur á félagslegum undirboðum.

Ásmundur Einar bendir á að þar sem stutt sé liðið frá gildistöku laganna eigi virkni þeirra eftir að koma að fullu í ljós. Reynslan sýni að brot á vinnumarkaði snúist oft um mun fleiri þætti en kjarasamninga eina og sér og varði gjarna löggjöf á ýmsum sviðum. Því skipti miklu máli að eftirlitsaðilar geti miðlað upplýsingum sín á milli til að eftirlitið skili fullnægjandi árangri.

Árangursríkt eftirlit krefst virks samstarfs margra

Ásmundur Einar DaðasonÁsmundur Einar segir það hafa komið glöggt fram í fréttaskýringaþætti RÚV í gær hvað þeir aðilar sem hafa skýran ásetning um að brjóta á vinnandi fólki beiti til þess margvíslegum aðferðum. Brotin séu margvísleg og sönnunarfærslan geti verið flókin. Til að eftirlitið sé árangursríkt þurfi virkt samstarf á mörgum sviðum, þvert á stofnanir og milli margra ólíkra aðila. Ráðherra segir það liggja ljóst fyrir að fulltrúar atvinnurekenda og launafólks séu á einu máli um að brot eins og hér um ræðir verði ekki liðin og viljinn til samstarfs sé skýr: „Ég vakti athygli á stöðu þessara mála í ríkisstjórn 14. september síðastliðinn og gerði tillögu um aukna samvinnu eftirlitsaðila til að sporna gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði.“ Til samstarfs í þessu skyni hefur ráðherra kallað til Alþýðusamband Ísland, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bandalag háskólamanna, BSRB, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Embætti ríkislögreglustjóra, Embætti ríkisskattstjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun. Hlutverk hópsins verður meðal annars að leggja til leiðir sem vænlegar eru til árangursríkara eftirlits. Hópnum er einnig ætlað að leggja til sameiginleg markmið eftirlitsaðila á vinnumarkaði og skilgreina mælikvarða til að meta árangurinn af þeim aðgerðum sem lagðar verða til. Gert er ráð fyrir að samstarfshópurinn skili ráðherra skýrslu fyrir 1. febrúar 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum