Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Fyrsti fundur nýskipaðs byggðamálaráðs

Nýskipað byggðamálaráð ásamt Ragnhildi Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Hermanni Sæmundssyni, skrifstofustjóra á skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála - mynd

Nýskipað byggðamálaráð fundaði í fyrsta skipti þriðjudaginn 2. október síðastliðinn. Hlutverk þess er að gera tillögu til ráðherra að stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára og fimm ára aðgerðaáætlun að fengnum áherslum ráðherra. Við undirbúning byggðaáætlunar og fimm ára aðgerðaáætlunar skal haft samráð við öll ráðuneyti á vettvangi stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál. Þá skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Horfa skal til þeirrar stefnumótunar sem fram kemur í stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga sem gerð er samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Jafnframt skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum og skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.

Byggðamálaráð er skipað tveimur fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þeim Ágústi Bjarna Garðarssyni, formanni ráðsins og Ingveldi Ásu Konráðsdóttur, Karli Björnssyni, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Aðalsteini Þorsteinssyni, forstjóra Byggðastofnunar og Hönnu Dóru Hólm Másdóttur, fulltrúa skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Verkefnisstjóri ráðsins er Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur á sömu skrifstofu. Skipunartími ráðsins takmarkast við embættistíma samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Með lögum nr. 53/2018 um breytingar á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2018, var sett í lög nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, ákvæði um byggðamálaráð og hlutverk þess. Sem áður segir gerir byggðamálaráð tillögu til ráðherra að stefnumótandi byggðaáætlun. Tilgangurinn með nýju lögunum er annars vegar að aðlaga vinnubrögð og aðferðafræði við gerð áætlana samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að nýrri hugsun samhæfðrar og samþættrar stefnumótunar og áætlanagerðar og hins vegar að samhæfa stefnumótun og áætlanagerð við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira