Hoppa yfir valmynd
4. október 2018 Innviðaráðuneytið

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku greindi Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá því að vinna væri að hefjast við stefnumótun til framtíðar fyrir sveitarstjórnarstigið. Meðal viðfangsefna væri að taka afstöðu til þess hver þyrfti að vera lágmarksstærð sveitarfélaga svo þau væri betur í stakk búin til að takast á við verkefni sín og margvíslegar áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Í ræðu sinni rakti ráðherra þróun sveitarstjórnarstigins og taldi upp ýmsar jákvæðar breytingar sem gerðar hafa verið og miðað að því að styrkja það og efla. Grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna árið 1996 og málefni fatlaðs fólks árið 2011 og hlutdeild þeirra í opinberum búskap hefur aukist. Breytingar á sveitarstjórnarlögum hafa aukið kröfur um formfestu og aga í stjórnsýslu sveitarfélaga og nýr fjármálakafli laganna styrkir umgjörð fyrir fjármálastjórnina. Þá hafa samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga þróast á jákvæðan hátt, meðal annars hvað varðar samstarf um opinber fjármál.

Sveitarfélögin standa hins vegar frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem þau þurfa að takast á við. Íbúar gera eðlilega kröfur um aukna og betri þjónustu, lífslíkur aukast og virkni fólks í samfélaginu öllu breytist. Ný lagaákvæði hafa komið til sem leggjar auknar skyldur á sveitarfélög, t.d. á sviði persónuverndar. Þá stendur samfélagið allt frammi fyrir gríðarlegum áskorunum á sviði umhverfis og loftlagsmála og þar verða sveitarfélögin að leggjast á árarnar eins og aðrir.

„Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélaganna eru fámenn. Og sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við þessarar áskoranir. Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39, og 25 sveitarfélög hafa færri en 500 íbúa – ríflega þriðjungur!“

Ráðherra benti á að verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, sem skilaði áliti sínu og tillögum á síðasta ári, komst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögin væru of fámenn. Það viðhorf hafi einnig komið fram í samtölum verkefnisstjórnar við sveitarstjórnarfólk um land allt.

„Mikill tími og fjármunir fara í rekstur sveitarfélaga og of lítið er aflögu til stefnumótunar og til að móta framtíðarsýn fyrir sveitarfélögin. Það var mat verkefnisstjórnar að núverandi sveitarstjórnarskipan sé að hluta til haldið við með samstarfi á milli sveitarfélaga, með samningum um samvinnu, byggðasamlögum eða á vettvangi landshlutasamtaka. Núverandi uppbygging Jöfnunarsjóðs komi þar einnig við sögu. Ég get tekið undir þetta.“

Ráðherra greindi frá leiðum sem kæmu til greina að vinna að því að sameina sveitarfélögin og efla þau á þann hátt. Kvaðst ráðherra lítast best blandaða leið sem byrjaði á átaki þar sem sveitarfélög hafa fjögur til átta ár til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum. Samhliða yrði veittur rausnarlegur stuðningur úr Jöfnunarsjóði við sameiningar og til  endurskipulagningu á stjórnsýslu og skuldalækkunar. Allt að fimmtán milljarðar gætu runnið úr Jöfnunarsjóði til átaksins og hugsanlega væri hægt að semja um einhverja meðfjármögnun ríkisins.

„Eftir að þessu fjögurra til átta ára tímabili lyki tæki hins vegar gildi nýtt ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi til að uppfylla skilyrði laganna um íbúafjölda. Ekki kæmi til íbúakosninga um sameiningar frá þeim tíma – heldur yrði um skyldubundna sameiningu að ræða – líkt og verkefnisstjórnin lagði til. Ég verð að segja að þetta er sú leið sem mér hugnast best – en ég hlakka til að heyra ykkar sjónarmið.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum