Hoppa yfir valmynd
8. október 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Tímamót á Tæknidegi fjölskyldunnar

Tímamót á Tæknidegi fjölskyldunnar - myndTæknidagur fjölskyldunnar
Tæknidagur fjölskyldunnar er tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi. Skipulag hans er á höndum Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands sem vilja með framtakinu vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í nærumhverfi sínu og varpa ljósi á fjölbreytt störf á þeim vettvangi. Dagskrá tæknidagsins fór fram í sjötta sinn í húsakynnum Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag og af því tilefni opnaði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra nýja aðstöðu fyrir nemendum í málmiðngreinum og vélstjórnarnámi í verkkennsluhúsi skólans.

„Það er heiður að fá að taka þátt í þessum fróðlega og skemmtilega degi með Austfirðingum og opna þessa nýju aðstöðu verkmenntaskólans,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni. „Uppbygging og efling verk- og iðnnáms á landsvísu er okkur mikið metnaðarmál og því skiptir aðstaða sem þessi miklu til framtíðar. Með henni er skólanum gert kleift að stækka sinn nemendahóp og sinna honum enn þá betur.“

Gestir á Tæknideginum gátu meðal annars spreytt sig í eldsmíði, fylgst með keppni vélmenna og skoðað stjörnur og vetrarbrautir í sérsmíðuðu stjörnutjaldi og auk þess sem fjölmargir frumkvöðlar, stofnanir og fyrirtæki kynntu þar fjölbreytta starfsemi sína og tæknilausnir. Aðsókn á Tæknidaginn hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og er áætlað að um 1400 gestir hafi notið dagskrár hans að þessu sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira