Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Sigríður fundaði með norrænum ráðherrum útlendingamála

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, ásamt Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku og Tor Mikkel Wara, dómsmálaráðherra Noregs, ásamt fylgdarliði og forstöðumanni Kærshovegård, miðstöð fyrir einstaklinga sem bíða brottflutnings - mynd

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sótti ráðherrafund NSHF (Norrænt samstarf í útlendingamálum) á dögunum en hann var haldinn í Danmörku að þessu sinni. Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku, tók á móti ráðherrum frá Íslandi, Noregi og Svíþjóð ásamt ráðuneytisstjóra frá Finnlandi.

Á fundinum voru málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttamanna og innflytjenda til umræðu. Danski ráðherrann kynnti sérstaka aðgerðaráætlun dönsku ríkisstjórnarinnar sem lýtur að aðgerðum í skipulags- og byggingarmálum svæða þar sem aðeins innflytjendur búa, breyttum skilyrðum fyrir því hverjir geti búið á svæðunum, aukinni löggæslu ásamt bættum aðstæðum fyrir börn og ungmenni og fleira. Þá bauð Støjberg til heimsóknar á eitt slíkt svæði í Vollsmose í Óðinsvéum.

Ráðherrarnir ræddu einnig sérstaklega um endursendingar og sjálfviljuga heimför þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd. Reynsla og aðgerðir Íslands og Norðurlandanna hvað það varðar eru sambærilegar, til dæmis að hvetja til sjálfviljugrar heimfarar í stað brottvísunar þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa fengið synjun.

Ráðherrarnir heimsóttu einnig Kærshovegård, miðstöð fyrir einstaklinga sem bíða brottflutnings, þar sem forstöðumaður miðstöðvarinnar kynnti starfsemina. Miðstöðin er fyrst og fremst ætluð einstaklingum sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd og bíða flutnings ásamt þeim bíða brottvísunar af öðrum sökum eða eru í svokallaðri þolanlegri dvöl. Miðstöðin er með rými fyrir allt að 400 einstaklinga.

Til kynningar á fundinum voru einnig norrænar aðgerðir gegn skilríkjafölsunum.

.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira