Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Frá fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga stóð yfir í Reykjavík dagana 11. og 12. október. Þar var meðal annars fjallað um afkomu sveitarfélaga, stöðu og framtíð sveitarfélaga, sameiningar og fleira.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ræðu á fjármálaráðstefnunni og hóf mál sitt á umfjöllun um fjármál ríkisins. Sagði hann ríkisstjórnina leggja áherslu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Þetta komi vel fram í fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára þar sem áhersla er á efnahagslegan stöðugleika og bætta afkomu hins opinbera.

Þá benti ráðherra á samgönguáætlun sem góðan vitnisburð um metnað ríkisstjórnarinnar hvað uppbyggingu innviða varðar. Um væri að ræða raunhæfa áætlun, að fullu fjármagnaða miðað við forsendur fjármálaáætlunar. Þá væri verið að stórauka fjármagn til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu en samkvæmt áætluninni og fjárlagafrumvarpi aukast fjárveitingar til nánast allra verkefna samgöngumála.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ræddi einnig um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna sem hafa náð miklum árangri. Sveitarstjórnarfólk tók fjármálin föstum tökum og markvisst hefur verið unnið að því að bæta afkomu einstakra sveitarfélaga. Þá tóku gildi ný sveitarstjórnarlög árið 2012. Fjármálakafli laganna tók gagngerum breytingum og voru sett strangari skilyrði um fjármálastjórn sveitarfélaganna. Við setningu laganna voru hátt í 20 sveitarfélög yfir hámarksskuldahlutfalli sem er 150%. Í dag eru aðeins tvö sveitarfélög yfir þessum mörkum og ef fer sem horfir verða öll sveitarfélög undir lögbundnu skuldahlutfalli við lok þessa kjörtímabils. Ráðherra velti þá upp þeim möguleika að lækka lögbundið hlutfall niður í 100 – 120%. Í dag væru um 19 sveitarfélög yfir 100% og 10 yfir 120% markinu og því raunhæft markmið að stefna að lækkun þess á næstu árum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira