Hoppa yfir valmynd
17. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um dvalarrými og dagdvöl

Alþingishúsið - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi á Alþingi sem hefur að markmiði að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri og snýr einnig að forgangsröðun umsókna eftir þörfum viðkomandi einstaklinga.

Frumvarpið er lagt fram þar sem vilji stendur til þess að unnt verði að samþykkja umsóknir um dvöl í dvalarrýmum og dagdvalarrýmum fyrir fólk sem er yngra en 67 ára ef fyrir liggur mat á þörf viðkomandi fyrir þessi úrræði. Heimild sem þessi er þegar fyrir hendi vegna þeirra sem eru yngri en 67 ára en hafa verið metnir í þörf fyrir hjúkrunarrými. Í gildandi löggjöf eru ákvæði um dvalarrými og dagdvöl einungis í lögum um málefni aldraðra, en ekki í lögum um heilbrigðisþjónustu. Gangi frumvarpið eftir verður ákvæðum um dvalarrými og dagdvöl bætt inn í lög um heilbrigðisþjónustu og einnig í lög um sjúkratryggingar.

Lagt er til að dvöl í dvalarrými og dagdvöl verði háð faglegu mati á heilsufari umsækjenda óháð aldri.

Við samningu frumvarpsins var haft samráð við sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun. Einnig voru haldnir samráðsfundir með Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, NPA-miðstöðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Tekið hefur verið tillit til sjónarmiða er komu fram á fundum velferðarnefndar Alþingis með umsagnaraðilum við fyrri meðferð frumvarpsins sem var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum