Hoppa yfir valmynd
19. október 2018 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um umboðsmann barna

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um umboðsmann barna í vikunni. Breytingar þær sem lagðar eru til er m.a. ætlað að styrkja rödd og auka áhrif barna í samfélaginu.

Á meðal breytinga í frumvarpinu er að á tveggja ára fresti verði haldið sérstakt barnaþing sem verður umfjöllunarvettvangur um stöðu og hagsmuni barna og ungmenna hér á landi og í alþjóðlegu samhengi. Þar munu börn hvaðanæva af landinu koma saman og ræða þau mál sem þeim hugnast. Í frumvarpinu er einnig lagt til að lögfestur verði sá ráðgjafahópur sem umboðsmaður barna hefur starfrækt að eigin frumkvæði undanfarin ár, en tólf börn á aldrinum 12-17 ára hafa verið í hópnum hverju sinni. Að lokum má nefna að lagt er til að umboðsmanni barna verði falið að safna gögnum um stöðu barna á Íslandi með markvissum hætti. Með þeim hætti verður tryggð heildstæð sýn á málefni barna og miðlæga öflun og miðlun gagna og upplýsinga um aðstæður barna. Slík gagnaöflun er nauðsynleg þegar kemur að því að taka stefnumótandi ákvarðanir er varða börn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Börn eiga að hafa um það að segja hvernig samfélagið er. Börn hafa rétt á að láta skoðanir sínar í ljós um samfélagsleg málefni og við eigum að hlusta eftir þeim. Samfélög eru ekki síst mæld eftir því hvernig þau koma fram við börn og hvernig þau tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína þannig að þau nái að dafna og fylgja draumum sínum eftir. Til þess þarf rödd barna að fá að heyrast og þeir sem eldri eru að vera reiðubúnir að hlusta.“

Grein forsætisráðherra birt í Fréttablaðinu 16. október sl.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum