Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mikilvægi vísindasamstarfs á norðurslóðum

Þing Hringborðs norðursins stendur nú yfir í Reykjavík og ávarpaði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra gesti þess í dag og ræddi um mikilvægi vísindasamstarfs og rannsókna á norðurslóðum.

Í ræðu ráðherra kom meðal annars fram að alþjóðlegt vísindasamstarf væri forsenda þess að unnt verði að skilja og bregðast við afleiðingum hlýnunar jarðar á umhverfi og samfélög á norðurslóðum. Einnig að til þess að meta til fulls þá margbrotnu félagslegu, menningarlegu og sögulegu þætti sem tengjast því stóra verkefni að aðlagast örum samfélags- og náttúrufarsbreytingum væri áríðandi að horfa til þess mannauðs og þekkingar sem til staðar er á hverju svæði fyrir sig: „Í því felst til að mynda að efla þverfaglegar rannsóknir sem tengja sama hug- og félagsvísindi við raun- og náttúruvísindi. Með þeim hætti má stuðla að því að stefnumótun og ákvarðanataka sé byggð á heildrænni sýn og að tekið sé tillit til viðhorfa og þekkingar íbúa á viðkomandi svæðum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Þær áskoranir sem hlýnun jarðar hefur í för með sér kalla á aukið samstarf. Viðbrögð okkar við þessum áskorunum munu skipta miklu fyrir lífsgæði framtíðarinnar og því brýnt að stefnumótun ríkja á svæðinu byggi á gagnreyndri þekkingu, yfirsýn og góðri samvinnu.“

Þá lagði ráðherra sérstaka áherslu á mikilvægi þess íbúar á norðurslóðum taki virkan þátt í ákvarðanatöku um mál er þeim tengjast sem og aðkomu þeirra að vísindarannsóknum á svæðunum.
Þing Hringborðs norðursins stendur til mánudagsins 22. október en það sækja um 2000 þátttakendur frá rúmlega 50 löndum, þar á meðal ráðherrar, vísindamenn, sérfræðingar, forystumenn í atvinnulífi, háttsettir embættismenn og leiðtogar frumbyggja og umhverfissamtaka.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira