Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Norrænir samstarfsráðherrar Íslands og Danmerkur funduðu í Kaupmannahöfn

Skrúðreið íslenska hestsins markaði upphaf hátíðarviðburðar í Kaupmannahöfn í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands og 50 ára afmæli Íslandshestafélagsins í Danmörku. Fyrir hópnum fóru Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra norræns samstarfs og Eva Kjer Hansen norrænn samstarfsráðherra í Danmörku. - mynd

Íslenski hesturinn var í aðalhlutverki á hátíðarviðburði í Kaupmannahöfn í gær til að fagna 100 ára fullveldisafmæli Íslands og fimmtíu ára afmæli Íslandshestafélagsins í Danmörku. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók þátt í glæsilegri skrúðreið um Kaupmannahöfn af þessu tilefni ásamt Evu Kjer Hansen jafnréttis- og sjávarútvegsráðherra Danmerkur en þau eru bæði ráðherrar norræns samstarfs.

Ráðherrarnir nýttu tækifærið og funduðu í Kristjánsborgarhöll um norrænt samstarf og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019. Verkefni Íslands í formannstíðinni verða Ungt fólk, Ferðaþjónusta og Hafið og síðan verða þrjú verkefni sett af stað undir hverri áherslu til þriggja ára. Þau voru sammála um mikilvægi þess að norrænt samstarf væri markvisst til að skila tilætluðum árangri. Danir væru þegar farnir að huga að formennsku sinni árið 2020 og því væri einnig rétt leita samlegðaráhrifa í verkefnum Íslands og Danmerkur í formannstíð landanna.

Skrúðreið frá Kristjánsborgarhöll að Norðurbryggju

Skrúðreiðin markaði upphaf hátíðarviðburðarins. Hópur fjörutíu hesta og knapa reið um borgina frá Kristjánsborgarhöll að sendiráði Íslands við Norðurbryggju. Á bryggjunni var fjölbreytt hátíðardagskrá sem tengdist íslenska hestinum og íslenskri menningu. Þar var meðal annars sýning um íslenska hestinn, Hafnarbræður og Dóttir, tveir kórar Íslendinga í Kaupmannahöfn, sungu og loks var boðið upp á veitingar að íslenskum sið.

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti hátíðarávarp og fjallaði um vinsældir íslenska hestsins og mikilvægi hans um aldir. Hann rifjaði upp brúðargjöf Íslendinga til Margrétar Þórhildar, þá krónprissessu, og Hinriks prins þegar þau giftu sig árið 1967. Þjóðin hafi fært þeim tvær hryssur, Perlu og Stjörnu, og verið stolt af þeirri gjöf og fylgst lengi vel með lífshlaupi þeirra á danskri grund. Sigurður sagði íslenska hestinn hafa verið kröftugan sendiherra víða um heim og þar væri Danmörk engin undantekning, en óvíða væri áhugi á íslenskum hestum meiri.

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar (á dönsku)

Frétt danska ríkisútvarpsins (DR) um hátíðarviðburðinn í Kaupmannahöfn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira