Hoppa yfir valmynd
23. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur - mynd

Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu á fundi hennar í dag tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess, til næstu fjögurra ára. Stýrihópur með fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta hefur unnið að áætluninni í samstarfi við fjölda aðila á síðustu misserum.

Það eru ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála sem standa saman að tillögunni og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að leggja hana fyrir Alþingi. Áætlunin er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar um að vinna markvisst gegn ofbeldi í samfélaginu, þar sem meðal annars er lögð áhersla á að útrýma kynbundnu ofbeldi, þar með töldu stafrænu kynferðisofbeldi.

Áætlunin tekur til ofbeldis í ólíkum birtingarmyndum og aðgerðirnar taka til líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis. Áætlunin byggist á þremur meginþáttum, þ.e; vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu, viðbrögðum sem snúast um verklag og málsmeðferð og valdeflingu þar sem áhersla er lögð á styrkingu þolenda í kjölfar ofbeldis.

Svæðisbundið samráð og aðgerðir um allt land

Stýrihópur ráðherranna sem vann aðgerðaáætlunina boðaði meðal annars til fjölmenns vinnufundar við undirbúning hennar þar sem efnislegur grunnur hennar var lagður. Stýrihópurinn hefur í vinnuferlinu jafnframt kallað til fundar við sig marga sérfræðinga sem veitt hafa upplýsingar um hvaða aðgerða sé helst þörf og rætt um mögulegar útfærslur þeirra. Auk þessa hefur verið fundað með lykilaðilum í hverjum landshluta í því skyni að efla svæðisbundið samráð um forvarnir, málsmeðferð og stuðning við þolendur í kjölfar ofbeldis.

Margar þeirra aðgerða sem lagðar eru til í áætluninni lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Þær taka einkum til forvarna og fræðslu, en einnig eru nokkrar aðgerðir ætlaðar til þess ætlaðar að bæta málsmeðferð í málum sem varða börn. Aftur á móti miðast aðgerðir um stuðning, ráðgjöf og önnur úrræði einkum við fullorðna þar sem kveðið er sérstaklega um þá þætti gagnvart börnum í ákvæðum barnaverndarlaga.

Vitundarvakning um ofbeldi sem alvarlegt samfélagsmein á síðustu árum

Á undanförnum árum hefur færst stigvaxandi þungi í opinbera umræða um ofbeldi sem alvarlegt þjóðfélagsmein og vitund samfélagsins, stofnana þess, stjórnmálamanna og almennings um þörf fyrir markvissar aðgerðir gegn því hefur aukist að sama skapi. Afleiðingar ofbeldis á þolendur og aðstandendur þeirra geta verið mjög alvarlegar og varanlegar. Samfélagslegt tjón af völdum ofbeldis er einnig verulegt og má meðal annars mæla í auknu álagi á félags- og heilbrigðisþjónustu. Þá leiðir ofbeldi til lægri framleiðni á vinnustöðum, aukinnar starfsmannaveltu og lægri þjóðarframleiðslu.

Í desember 2014 undirrituðu þrír ráðherrar samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og var á grundvelli þess efnt til margvíslegra verkefna til að auka umræðu, þekkingu og faglega umfjöllun um ofbeldi í samfélaginu. Ráðherrayfirlýsingin var endurnýjuð í kjölfar alþingiskosninganna 2016 og aftur í kjölfar kosninganna 2017. Nú eru það ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigríður Anderssen, dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem hafa sammælst um að leggja fram þá tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun.

Samstarf þvert á ráðuneyti og málaflokka mikilvægt

Ásmundur Einar DaðasonÁsmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að með aðgerðaáætluninni sé stigið mikilvægt skref í baráttunni gegn ofbeldi í samfélaginu. Ráðuneytin hafi unnið vel saman og nú bindi hann vonir við að Alþingi sameinist að baki metnaðarfullri aðgerðaáætlun sem unnið verði eftir á komandi árum: „Sum verkefni gera mjög ríkar kröfur til samstarfs og samvinnu þvert á ráðuneyti og málaflokka. Það á við um jafnréttismál, það á við um baráttuna gegn ofbeldi og það á við um samstarf í þágu barna, líkt og undirstrikað var með samstarfsyfirlýsingu fimm ráðherra sem undirrituð var í september síðastliðnum. Ég er sannfærður um að þessi afdráttarlausi vilji til samstarfs muni greiða fyrir aðgerðum og skila mikilvægum árangri á komandi misserum og árum“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags og jafnréttismálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira