Hoppa yfir valmynd
25. október 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ákvörðun ráðuneytis vegna dagskrárkynningar RÚV í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarið haft til skoðunar fyrirspurnir sem varða dagskrárkynningu Ríkisútvarpsins (RÚV) í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sumarið 2018. Eftir að dagskrárkynningin var birt fékk forsætisráðuneyti fyrirspurnir um hvort með henni hafi lög um þjóðsönginn verið brotin. Vegna tengsla forsætisráðherra við málið var fjármála- og efnahagsráðherra falið, á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fara með málið og taka ákvörðun í því.

Ráðuneytið hefur komist að niðurstöðu í málinu og svarað fyrirspyrjendum með eftirarandi bréfi:

Ráðuneytið vísar til fyrirspurna sem varða dagskrárkynningu Ríkisútvarpsins í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sumarið 2018. Í kynningunni las hópur einstaklinga hver um sig upp eina setningu í fyrsta erindi ljóðs Matthíasar Jochumssonar „Ó Guð vors lands“. Umræddar fyrirspurnir snúa helst að því hvort Ríkisútvarpið kunni að hafa brotið gegn lögum um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983, með notkun sinni á þjóðsöng íslensku þjóðarinnar. Samkvæmt lögunum er óheimilt að flytja eða birta þjóðsönginn í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð auk þess sem óheimilt er að nýta þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Forsætisráðuneyti fór þess á leit við Ríkisútvarpið með bréfi, dags. 3. júlí 2018, að það upplýsti hvernig dagskrárkynningin samrýmdist ákvæðum laga nr. 7/1983, um þjóðsöng Íslendinga. Svar Ríkisútvarpsins barst forsætisráðuneytinu hinn 19. júlí sl. Þar var því hafnað að um flutning á þjóðsöng Íslendinga hafi verið að ræða í skilningi laganna, þar sem dagskrárkynningin hafi verið takmörkuð við ljóð Matthíasar Jochumssonar og lagið ekki verið haft þar með. Þá taldi stofnunin notkunina tæplega geta talist vera í auglýsingaskyni í merkingu laganna, þar sem um dagskrárkynningu fyrir heimsmeistaramótið hafi verið að ræða, sbr. a-lið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, þar sem kveðið er á um að tilkynningar frá stofnuninni um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar teljist ekki til viðskiptaboða í merkingu ákvæðisins. 

Vegna tengsla forsætisráðherra við málið var fjármála- og efnahagsráðherra falið með bréfi, dags. 14. ágúst sl., á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fara með málið og taka ákvörðun í því.

Með tölvupóstum hinn 25. september og 8. október sl. fór ráðuneytið þess á leit við Ríkisútvarpið að fá sent afrit af umræddri dagskrárkynningu. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með tölvupóstum hinn 10. og 11. október sl.

Markmið fjölmiðlaþjónustu í þágu almennings, sem Ríkisútvarpinu hefur verið falin, sbr. 1. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, er að leggja rækt við íslenska tungu og menningu þjóðarinnar. Í þeim lögum sem og gildandi þjónustusamnings milli mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins kemur fram að Ríkisútvarpinu sé ætlað að stuðla að félagslegri samheldni í samfélaginu. Í ákvæðum þjónustusamningsins um samfélagshlutverk Ríkisútvarpsins segir að hlutverk þess sé að stuðla að „útsendingum frá stórviðburðum og viðburðum sem sameina þjóðina“. Af svörum stofnunarinnar verður ráðið að birting umræddar dagskrárkynningar hafi verið liður í að rækja framangreindar skyldur Ríkisútvarpsins.

Flutningur eða birting í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð

Samkvæmt 1. gr. laga um þjóðsöng Íslendinga er þjóðsöngurinn ljóð Matthíasar Jochumssonar og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Í því tilviki sem hér um ræðir var notkun Ríkisútvarpsins takmörkuð við upplestur á fyrsta erindi ljóðs Matthíasar Jochumssonar. Með vísan til þess var ekki um flutning á þjóðsöngnum að ræða í skilningi laganna heldur flutning og birtingu á fyrsta erindi ljóðsins í sinni upprunalegu gerð. Því er það mat ráðuneytisins að Ríkisútvarpið hafi ekki með notkun sinni á ljóði Matthíasar Jochumssonar brotið gegn 1. málsl. 3. gr. laga nr. 7/1983.

Flutningur eða birting í viðskipta- eða auglýsingaskyni

Þar sem ráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um eiginlegan flutning á þjóðsöngnum að ræða í skilningi laganna kemur ekki til skoðunar hvort 2. málsl. 3. gr. laga um þjóðsöng Íslendinga eigi við.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum