Hoppa yfir valmynd
25. október 2018 Innviðaráðuneytið

Víðtækt samráð um frumvarp til nýrra umferðarlaga

Frumvarp til nýrra umferðarlaga hefur verið lagt fram á Alþingi. - mynd Mynd: iStock

Mörg veigamikil nýmæli og breytingar eru boðaðar í frumvarpi til nýrra umferðarlaga sem lagt var fram á Alþingi þriðjudaginn 23. október. Um er að ræða heildarendurskoðun á núgildandi lögum sem eru í grunninn frá árinu 1987 og er frumvarpið afrakstur víðtæks samráðs við almenning og helstu hagsmunaaðila. Í fyrstu grein lagafrumvarpsins segir að markmið laganna sé „að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta, og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar.“ Verði frumvarpið samþykkt munu lögin taki gildi 1. janúar 2020.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi og sagði að með nýjum umferðarlögum myndi Ísland standa jafnfætis þeim þjóðum, sem við kjósum að bera okkur saman við, hvað varðar heildstæðar umferðarlöggjöf og umferðaröryggi.

Ráðherra sagði frumvarpið afrakstur víðtæks samráðs við helstu hagsmunaaðila og almenning. Fyrst hafi verið kallað eftir sjónarmiðum almennings og hagsmunaaðila í janúar árið 2018 en þá bárust 32 umsagnir. Eftir að drög að frumvarpi ásamt greinargerð voru birt í samráðsgátt stjórnarráðsins í febrúar bárust 52 umsagnir við frumvarpsdrögin frá hagsmunaaðilum, stofnunum og einstaklingum. Unnið var úr þeim umsögnum og í kjölfarið var heildarfrumvarp til nýrra umferðarlaga birt á samráðsgáttinni í júlí. Eftir það bárust 30 umsagnir til viðbótar.

Með heildarendurskoðun umferðarlaga er brugðist við þróun sem orðið hefur á samgöngum og samfélaginu í heild á undanförum árum. Unnið hefur verið að endurskoðun umferðarlaga í um áratug með hléum. Helstu markmið nýrra laga samkvæmt greinargerð frumvarpsins er m.a. að stuðla enn frekar að öryggi í umferðinni, færa gildandi ákvæði til nútímalegra horfs, laga umferðarlöggjöf að alþjóðlegum samningum og taka í auknum mæli tillit til breyttra samgönguvenja og fjölbreyttari samgöngumáta, þ.m.t. almenningssamgangna og hjólreiða svo nokkuð sé nefnt.

Helstu nýmæli og breytingar
Meðal nýmæla í frumvarpinu er að lagt er að lækkuð verði mörk leyfilegs vínandamagns í blóði ökumanns úr 0,5 í 0,2 prómill. Markmið þess er að senda skýr skilaboð að akstur og áfengisdrykkja fari ekki saman. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um vanhæfismörk vegna ýmissa lyfja. Er það sú leið sem farin hefur verið í Noregi með góðum árangri. Slíka reglugerðarheimild er ekki að finna í núgildandi lögum.

Í frumvarpinu er að finna bann við akstri gegn rauðu ljósi en slíkt bann hefur hingað til aðeins verið í reglugerð. Þá er lagt til að reglur um akstur í hringtorgum sem hefð hefur myndast fyrir hér á landi verði lögfestar. Samkvæmt því skal ökumaður á ytri hring veita þeim sem ekur á innri hring forgang út úr hringtorgi.

Hjólreiðakafli núverandi laga er tekinn til heildarendurskoðunar og reglur um hjólreiðar skýrðar. Lagt er til að hjálmaskylda barna verði fest í umferðarlög en til þessa hefur hana aðeins verið að finna í reglugerð. Þá er hugtakið „göngugata“ skilgreint í frumvarpinu og sérstakt ákvæði sett um reglur sem gilda skulu í göngugötum. Þannig er umferð vélknúinna ökutækja í göngugötum almennt óheimil með ákveðnum undanþágum.

Snjalltæki og sjálfakandi bifreiðar
Mikil og aukin notkun snjalltækja í umferðinni hefur valdið áhyggjum og þess vegna er hugtakið „snjalltæki“ skilgreint í frumvarpinu og skýrt kveðið á um bann við notkun slíkra tækja auk farsíma við stjórnun ökutækja.

Það nýmæli er einnig að finna í frumvarpinu að hægt verður að óska eftir leyfi til prófana á sjálfakandi ökutækjum. Gert er ráð fyrir að sett verið reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði slíkra prófana. Er þetta fyrsta skrefið í að innleiða nýja tækni og opnar fyrir möguleika að slík ökutæki verið prófuð við einstakar íslenskar aðstæður.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti loks í framsöguræðu sinni að lögin tækju gildi 1. janúar 2020 yrði frumvarpið samþykkt. Ráðherra sagði það afar brýnt að kynna þær veigumiklu breytingar á löggjöf sem kemur beint eða óbeint við almenning allan með víðtækum hætti áður en það öðlist gildi.

Frumvarp til umferðarlaga
Umræður á Alþingi 23. október 2018 um frumvarp til umferðarlaga
Leiðbeiningar um umsagnir við þingmál

Víðtækt samráð um ný umferðarlög.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum