Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Norrænir utanríkisráðherrar sýna Danmörku samstöðu

Utanríkisráðherrar Norðurlanda á fundi sínum í Ósló í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók í dag þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Osló. Á fundinum gerði utanríkisráðherra Danmerkur grein fyrir nýlegum lögregluaðgerðum sem komu í veg fyrir morð á írönskum stjórnarandstæðingum búsettum í Danmörku. „Norðurlöndin sýna dönskum yfirvöldum fulla samstöðu vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar, enda tilræðið árás á norrænt samfélag og þau gildi sem það stendur fyrir,“ sagði Guðlaugur Þór. Ráðherrarnir samþykktu sameiginlega yfirlýsingu um málið. 

Almennt sagði utanríkisráðherra góða samstöðu ríkja meðal Norðurlandanna í utanríkismálum og samstarfið hafa aukist og dýpkað undanfarin ár. Ráðherrarnir ræddu áskoranir í alþjóðlegum öryggismálum, þ.m.t. átökin í Austur-Úkraínu, samskiptin við Rússland og svæðisbundna öryggissamvinnu í Eystrasaltinu og á Norður-Atlantshafi. Málefni Sameinuðu þjóðanna voru einnig til umræðu þar sem Svíþjóð hefur setið í öryggisráðinu og gerir til ársloka. Þá fóru ráðherrarnir yfir stöðuna varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ræddu samstarf við Kína og sameiginlegt kynningarstarf Norðurlandanna í öðrum ríkjum.

Ísland gegnir formennsku í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlandanna á næsta ári. Guðlaugur Þór gerði að tillögu sinni að á formennskuárinu settu Norðurlöndin af stað vinnu til að leggja mat á framkvæmd tillagna Thorvalds Stoltenberg frá árinu 2009 sem miðuðu að aukinni norrænni samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála. „Á næsta ári eru tíu ár liðin frá útkomu Stoltenberg-skýrslunnar og því tímabært að meta hvernig samvinnan hefur þróast og hvort hana megi dýpka enn frekar, og það fer vel á því að stíga skref í þá átt á formennskuári Íslands í norrænu samstarfi", segir Guðlaugur Þór.

Fyrr í dag tók utanríkisráðherra þátt í umræðum um alþjóðamál á 70. þingi Norðurlandaráðs og svaraði þar spurningum þingmanna frá Norðurlöndunum. Í ávarpi sínu greindi Guðlaugur Þór frá  formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og Norrænu ráðherranefndinni, og í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda (N5) og samstarfi þeirra við starfssystkin frá Eystrasaltsríkjunum (NB8) sem hefst á næsta ári. Utanríkisráðherra sagði ennfremur norrænt samstarf þýðingarmikið og að Norðurlöndin þyrftu áfram að vera sterk rödd á alþjóðavettvangi í þágu alþjóðalaga, mannréttinda og friðar.

Samtímis fór fram fundur norrænu þróunarmálaráðherranna sem María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sótti fyrir hönd ráðherra. Var þar lögð mikil áhersla á samspil mannréttinda, lýðræðis, grundvöll réttarríkis og þróunar.


  • Utanríkisráðherra flytur ræðu um utanríkismál á Norðurlandaráðsþingi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira